Vont ef það molnar undan löggjöfinni

Samsett mynd/mbl.is/Unnur/Kristófer

Ríkisstjórnin þarf að koma sér saman um endurbætur á áfengislögum sem allir geta sameinast um. Ef þingið aðhefst ekki þá byrjar að molna undan löggjöfinni. 

Þetta segir Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar, í samtali við mbl.is.

Hag­kaup hyggj­ast hefja net­versl­un á áfengi í næsta mánuði, sem hef­ur vakið gremju hjá for­svars­mönn­um ÁTVR. Sam­kvæmt áfeng­is­lög­um er ÁTVR eina fyr­ir­tækið sem er með einka­leyfi til áfeng­is­sölu í smá­sölu en sum­ir smá­sal­ar áfeng­is hafa nýtt sér þá laga­smugu að stofna er­lent fyr­ir­tæki til að selja vín hér á landi.

„Sú staða sem er upp núna, að hugmyndaríkt og framtakssamt fólk nýti sér glufu í lögunum – eins og ég skil þetta – hún er ekki góð. Það er ekki gott heldur að fylgjast með einstaka ráðherrum ríkisstjórnarinnar kýta um túlkun núgildandi löggjafar í fjölmiðlum. Það lýsir annars vegar kæruleysi þessa stjórnarsamstarf en líka ákveðinni hræðslu og getuleysi við að fara ofan í þessa löggjöf og gera breytingar sem við getum öll sameinast um,“ segir Hanna.

„Það er auðvitað vont“

Hún telur að sú staða sem sé upp núna sýni fram á nauðsyn þess að farið verði ofan í kjölinn á lögunum og þau bætt til að útrýma óvissu um túlkun þeirra.

Er að molna undan löggjöfinni vegna breyttra tíma?

„Ég held að það að hafa ekki haft þor til þess að takast á við þessa breyttu tíma og auknu kröfur, aðgengi erlendis frá, geti haft það í för með sér að það molni undan löggjöfinni. Það er auðvitað vont. Ef að þingið tekur ekki á þessu máli og fer ofan í löggjöfina þá sé ég ekki betur en að sú vegferð sé að minnsta kosti hafin,“ svarar Hanna.

Umræðan út og suður

Hún telur að það sé meirihluti fyrir því að þinginu að skoða löggjöfina, sérstaklega í ljósi þess að ágreiningur ríkir meðal margra um túlkun laganna. Þrátt fyrir það sé umræðan oft út og suður.

„Mér kemur á óvart þegar þetta er rætt hve margir fara í baráttuna um ríkiseinokun eða ekki, eins og þar liggi víglína frekar en aðgengismál og forvarnir. Ég átta mig satt best að segja ekki hvar sú víglína liggur í þinginu.

Orðræðan er stundum þannig að svo lengi sem það er ríkiseinokun í sölu áfengis þá má opna eins mörg útibú og hver vill, það má hafa opnunartíma eins og mönnum sýnist og svo framvegis,“ segir Hanna.

Hún segir skipta máli að það ríki löggjöf sem fólk skilji og fyrirtæki geti fylgt eftir. Fyrir hennar leyti þá má ríkiseinokunin hverfa á braut og vill Hanna þess í stað gefa fólki og fyrirtækjum færi á að vera með eigin verslanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka