Fyrirtækjaeigendur vilja fund með ríkisstjórn

Einhver óánægja er meðal fyrirtækjaeigenda þar sem ekki verður keypt …
Einhver óánægja er meðal fyrirtækjaeigenda þar sem ekki verður keypt upp atvinnuhúsnæði í bænum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hópur eigenda lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Grindavík hafa óskað eftir fundi með ríkisstjórninni vegna ákvörðunar hennar um að kaupa ekki upp atvinnuhúsnæði í bænum.

Gylfi Þór Þorsteinsson, verkefnastjóri sam­hæf­ingar vegna Grinda­vík­ur, segir í samtali við mbl.is að honum hafi borist tölvupóstur frá hópnum vegna fundarbeiðninnar. Hann segir að hann muni koma erindinu áleiðis til ríkisstjórnarinnar. 

„Persónulega ræð ég ekki hverja ríkisstjórnin hittir hverju sinni en það sem ég mun sannarlega gera er að koma þessum skilaboðum áfram,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is.

Sitja föst með verðlausar eignir

Dag­mar Vals­dótt­ir, at­vinnu­rek­andi í Grinda­vík, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að það hefðu verið mikil vonbrigði þegar tilkynnt var að ríkið myndi ekki kaupa upp atvinnuhúsnæði í Grindavík.

„Hvað haldið þið að það kosti ríkið að vera með okk­ur á styrkj­um eða bót­um í eitt, tvö eða þrjú ár? Gríðarlegu fé er varið í skýrsl­ur, nefnd­ir og varn­argarða á meðan við sitj­um hér föst með verðlaus­ar eign­ir,“ sagði Dag­mar í sam­tali við Morg­un­blaðið.

Ekki öll fyrirtæki með atvinnuhúsnæði

Fann­ar Jónas­son, bæj­ar­stjóri Grinda­vík­ur, nefndi það í sam­tali við mbl.is í síðustu viku að fyr­ir­tæk­in í Grinda­vík hefðu kallað eft­ir því að ríkið myndi kaupa upp at­vinnu­hús­næði.

Sig­urður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í samtali við mbl.is að nokkr­ar ástæður lægju þar að baki.

„Í þeim til­vik­um sem að við vær­um að kaupa upp skuld­sett at­vinnu­hús­næði þá vær­um við fyrst og fremst að styðja við fjár­mála­fyr­ir­tæki, sem okk­ur finnst ekki endi­lega rétt að nota skatt­fé al­menn­ings til,“ sagði Sig­urður við mbl.is þegar aðgerðir ríkisins voru kynntar í síðustu viku. 

Þá sagði Sigurður að fyr­ir­tæk­in væru mis­mun­andi og að þau ættu ekki öll at­vinnu­hús­næði. Ekki væri hægt að mis­muna fyr­ir­tækj­um í stuðningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert