Sala á Landsvirkjun stendur ekki til

Halla Hrund sagði á dögunum að hún teldi að sala …
Halla Hrund sagði á dögunum að hún teldi að sala Landsvirkjunar kæmi á borð næsta forseta. Samsett mynd

Sala á hlut ríkisins í Landsvirkjun til einkaaðila hefur aldrei komið til tals að sögn fjármálaráðherra og stendur ekki til. Forstjóri Landsvirkjunar segir að þverpólitísk sátt sé um að selja Landsvirkjun ekki. Forsetaframbjóðandi sagði þó að slík sala kæmi á borð næsta forseta.

Viðtal við Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra hjá Vísi á dögunum vakti þó nokkra athygli en þar fullyrti hún að mikil krafa væri á sölu Landsvirkjunar.

„Það er mikil krafa á sölu á Landsvirkjun sem ég tel að muni koma inn á borð næsta forseta,“ sagði hún í samtali við Vísi.

Sala Landsvirkjunar aldrei komið til tals

Mbl.is hafði samband við forstjóra Landsvirkjunar og hlutaðeigandi ráðherra og könnuðust þeir ekki við meinta kröfu um sölu Landsvirkjunar. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar segir að það sé ekki á hans borði að móta stefnuna né taka ákvarðanir um eignarhald.

„Eftir því sem ég best veit þá hafa allir stjórnmálaflokkar verið mjög afdráttarlausir með það mál, að það standi ekki til [að selja Landsvirkjun],“ segir Hörður í samtali við mbl.is.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fer með hlut ríkisins í Landsvirkjun fyrir hönd ríkisins. Hann segir í svari við fyrirspurn mbl.is að sala Landsvirkjunar standi ekki til og hafi ekki komið til umræðu.

„Það hefur aldrei komið til tals og stendur ekki til að selja hluti í Landsvirkjun hjá ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og VG. Aukinheldur hefur Framsókn ályktað margoft - núna síðast á flokksþingi 20-21 apríl síðastliðinn - að Landsvirkjun eigi að vera að fullu í eigu þjóðarinnar um ókomna tíð.

Í ræðu minni á flokksþingi tók ég þetta sérstaklega fyrir til að árétta mikilvægi eignarhalds þjóðar á þessu langmikilvægasta og verðmæta orkufyrirtæki,“ segir Sigurður.

Landsvirkjun verður áfram í eigu þjóðarinnar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sagði í samtali við mbl.is að hvorki stæði til að selja hlut í Landsvirkjun nú á næstunni né á næstu árum.

Stendur til á næstunni, eða á næstu árum, að selja einhvern hlut ríkisins í Landsvirkjun til einkaaðila?

„Nei, og það hefur ekki verið nein umræða um það,“ segir Guðlaugur Þór.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir að Landsvirkjun sé í eigu þjóðarinnar og verði það áfram.

„Landsvirkjun verður ekki einkavædd á vakt Framsóknar og fólkið í flokknum er eindregið mótfallið því, eins og fram kom á síðasta flokksþingi. Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar og verður áfram í eigu hennar. Framsókn hefur haft þess skýru afstöðu og sýn,“ segir Lilja í samtali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka