Forsetaframbjóðandinn Arnar Þór Jónsson er ekki sá þekktasti í hópi frambjóðenda en hann hefur verið í snertingu við stjórnsýsluna, háskólastigið og atvinnulífið.
„Ég hef starfað í stjórnsýslunni, innan dómstólakerfisins, í háskólanum auk þess að vera lögmaður og ég vann meira að segja í banka í nokkra mánuði 2005. Ég hef horft á mannlífið frá mörgum útsýnishólum og kynntist fólki úr öllum áttum sem héraðsdómari. Þar þurfti ég að horfast í augu við hræðilegar heimilisaðstæður í sumum tilfellum. Ég hef kynnst fólki sem kallað er ógæfufólk en einnig fólki sem gegnir æðstu embættum á landinu og það er þroskandi að kynnast slíkri breidd í mannlífinu.“
Arnar fór í sálgæslunám og segir það hafa gert sér afskaplega gott.
„Já það er diplómanám í endurmenntun Háskóla Íslands og gengur út á að styðja við fólk sem gengur í gegnum erfið tímabil eða er að vinna úr áföllum. Gagnaðist þetta mér til dæmis sem dómari því þar var ég oft í hlutverki að sætta foreldra sem deildu um forsjár barns eða þegar ég vildi reyna að skilja aðstæður fólks sem komið var á vondan stað í lífinu. Sálgæslunámið reyndist gott verkfæri til að fræðast betur um hina litríku flóru mannlífsins og allan þann farangur sem við öll burðumst með á bakinu en viljum ekki gera. Því miður erum við oft að burðast með ferðatösku sem við ættum bara að henda frá okkur. Fyrst er þó ágætt að opna þessa ferðatösku og velja hverju við viljum halda úr henni áður en hún fer á haugana. Öll þessi efnishyggja sem einkennir líf okkar gæti hugsanlega stafað af því að við séum á einhvers konar flótta frá því að horfast í augu við okkur sjálf.“
Ítarlegt viðtal við Arnar Þór og fleiri frambjóðendur er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.