Lögreglan á Suðurlandi bíður eftir niðurstöðu frá Landsrétti eftir að hafa kært þangað úrskurð Héraðsdóms Suðurlands sem hafnaði fyrir helgi beiðni lögreglu um áframhaldandi varðhald yfir litháískum karlmanni grunuðum um manndráp í sumarhúsi í Kiðjabergi.
Maðurinn er þó enn í haldi vegna annars dóms sem hann þarf að afplána.
Héraðsdómur Suðurlands samþykkti aftur á móti fyrir helgi beiðni lögreglunnar um farbann yfir öðrum litháískum karlmanni í málinu.
Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir rannsókn málsins ganga vel. Beðið er eftir frekari gögnum og niðurstöðum úr hinum ýmsu rannsóknum, auk þess sem skýrslutökur eru enn í gangi.
Upphaflega voru fjórir menn handteknir þann 20. apríl en tveimur síðar sleppt. Maður frá Litháen á fertugsaldri var úrskurðaður látinn skömmu eftir komu viðbragðsaðila á vettvang.