Lögreglan „á svipuðum slóðum og fyrir helgi“

Skúli Jónsson, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, segir lögregluna vinna …
Skúli Jónsson, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, segir lögregluna vinna að því að upplýsa málið. Samsett mynd

Leit stendur enn yfir af manninum eða mönnunum sem hafa að und­an­förnu ógnað eða jafn­vel ráðist á börn í Hafnar­f­irði. Engin framvinda hefur orðið á málinu hjá lögreglu síðan fyrir helgi. 

„Við erum á svipuðum slóðum og fyrir helgi,“ segir Skúli Jóns­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, í samtali við mbl.is. 

Ekki vitað um fleiri tilfelli

Að sögn Skúla hafa ekki borist fleiri tilkynningar vegna sambærilegra atvika síðan greint var frá því að fjögur atvik hefðu orðið í Hafnarfirði að undanförnu þar sem maður annað hvort ógnaði börnum eða réðist á þau. 

Þá segist hann ekki vita til þess að sambærileg mál hafi komið upp annars staðar á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. 

Lögreglan með aukið eftirlit á svæðinu 

Sjö foreldrar barna í Víðistaðaskóla stóðu vaktina í morgun á helstu gönguleiðum umhverfis skólann til að gæta barna á leið í skólann. Skúli segist ánægður með þetta framtak foreldra og segir lögregluna jafnframt með aukið eftirlit. 

„Við erum bara að reyna að upplýsa þetta,“ segir hann og bætir við að lögreglan verði með aukna áherslu á gæslu á svæðinu næstu daga.  

Aðspurður segist hann ekki vita til þess að foreldrar barna í öðrum skólum í Hafnarfirði hafi staðið sambærilega vakt á göngustígum í morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert