Lögreglan rannsakar mannslát

Bolungarvík.
Bolungarvík. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglan á Vestfjörðum rannsaknar nú mannslát í heimahúsi í Bolungarvík. Rannsókn málsins er á algjöru frumstigi og nýtur embættið aðstoðar frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Þetta staðfestir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum. 

Rúv greindi frá því að verið væri að rannsaka mannslát. 

Tæknideild lögreglunnar var flogið á Ísafjörð fyrr í kvöld. Ekki lá fyrir fyrir hvert erindi tæknideildarinnar var í fyrstu en Helgi Jensson, lögreglustjóri á Ísafirði, vildi ekki tjá sig um það þegar eftir því var leitað.

„Við getum ekki talað um það núna en verið var að flytja tæknideildarmenn vestur í máli sem verið er að rannsaka,“ sagði Helgi. 

Spurður hvort um manndrápsmál sé að ræða þá neitaði Helgi að tjá sig. 

„Þetta er mál sem var að koma upp og rannsóknin var að byrja,“ segir Helgi.  

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að beiðni hafi komið frá lögreglu um flutning. Að öðru leyti hafi hann ekki upplýsingar um málið.

Fréttin var uppfærð klukkan 00:03.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka