Myndbandið úr alþjóðlegum myndabanka

Myndefni sem notað var í kynningarmyndbandi Höllu Hrundar Logadóttur, forsetaframbjóðanda og var sagt fengið án leyfis, kemur úr alþjóðlegum myndabanka.

Þetta kemur fram í svari framboðsins við fyrirspurn mbl.is, en svarið má lesa í heild sinni hér að neðan.

Fyrr í kvöld birti mbl.is viðtal við kvikmyndatökumanninn Bjarka Jóhannsson þar sem hann sagði framboð Höllu Hrundar hafa notað myndbandsbút í hans eigu, í leyfisleysi en greindi frá því að hann hefði selt leyfi fyrir notkun myndbandsbútarins til Orkustofnunar á síðasta ári. Sagði hann birtinguna brot á höfundarrétti.

„Ég varð nokkuð hissa því ég vissi ekki til þess að neinn hefði keypt þessa klippu á þessu ári. Klipp­una, sem er loft­mynd af Reykja­nes­virkj­un, hef ég ekki selt á þessu ári til neins kaup­anda, en ég veit að Orku­stofn­un notaði þessa klippu á net­inu í fyrra með fullu leyfi og ég fékk greitt fyr­ir þau af­not,“ sagði Bjarki um málið.

Svar framboðs Höllu Hrundar:

„Að gefnu tilefni vill framboð Höllu Hrundar Logadóttur koma því á framfæri að myndefni sem fjallað var um á vef Morgunblaðsins fyrr í dag kemur úr alþjóðlegum myndabanka (https://elements.envato.com/ ) og samkvæmt skilmálum þess myndabanka er leyfi fyrir birtingu myndefnisins í sjónvarpi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka