Þrælar byggðu ekki pýramídana

Pýramídar Egyptalands sem reistir voru sem grafhýsi faraóanna eða konunga Egypta til forna hafa löngum vakið aðdáun og um leið verið sveipaðir dulúð. Eitt af því sem almennt hefur verið talið, er að þrælar hafi reist þessu miklu mannvirki, hvattir eða lamdir áfram af þrælapískurum. Nú er komið á daginn að þessi hugmynd á ekki við rök að styðjast. 

Fornleifarannsóknir sem stundaðar hafa verið í og við þessi miklu mannvirki hafa dregið upp aðra mynd og er hún studd sterkum rökum. Sigurður Bergsteinsson, verkefnisstjóri hjá minjastofnun Íslands er gestur Dagmála í dag og ræðir fornleifarannsóknir á Íslandi og víðar.

Hann segir að margt sé að gerast í fornleifafræðum og nefnir til sögunnar pýramídana. Þar hafi fjölmargar rannsóknir dregið upp þá mynd að ungir menn hafi komið í einskonar þegnskylduvinnu á ákveðnum tímum árs og séð um að reisa hin miklu grafhýsi.

Ný vitneskja

Þessi nýja vitneskja hefur komið í ljós með að skoða bréf rituð á papýrus frá þessum tíma, sem hafa fundist. Þá hefur veggjakrot eða merkingar á steinum í pýramídunum einnig leitt í ljós allt aðra mynd af þessari byggingavinnu en að þrælar hafi verið notaðir.

Nóg var að eta og drekka fyrir þessa ungu menn og segir Sigurður að margt bendi til þess að þátttakendur hafi verið stoltir af því að taka þátt í þessari vinnu og haft gaman af.

Með fréttinni fylgir hluti af viðtalinu við Sigurð, þar sem hann ræðir sérstaklega um nýja vitneskju í tengslum við byggingu þessara merku mannvirkja.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert