Ástþór Magnússon hefur eytt fimmtán sinnum meira en næsti frambjóðandi í auglýsingar á samfélagsmiðlum eða 7.8 milljónum króna.
Þetta kemur fram á lifandi mælaborði frá auglýsingastofunni SAHARA.
Andreas Aðalsteinsson, yfirmaður starfrænnar deildar og meðeigandi hjá SAHARA, segir í samtali við mbl.is mikil aukning í nýtingu samfélagsmiðla í kosningabaráttum:
„Okkar mat sem stafræn auglýsingastofa er að þetta virðist bara vera mikið nýtt af frambjóðendum. Það eru mikil tækifæri þarna til þess að sérsniða skilaboð til markhópsins. Stór partur af samfélaginu er á þessum miðlum.“
Á mælaborðinu er hægt að fylgjast með því í rauntíma hvað frambjóðendur til embættis forseta Íslands eru að gera á Google, Facebook og öðrum samfélagsmiðlum.
Á því má sjá upplýsingar um þróun á hve miklu fé frambjóðendur eyða í auglýsingar á miðlum Meta, þróun á fjölda fylgjenda allra frambjóðenda á samfélagsmiðlum og áhuga almennings á frambjóðendum. Gögnin gefa á einhverju leyti vísbendingar um vinsældir eða óvinsældir frambjóðendanna.
Mælaborðið eru beintengt við gögn hjá Google og Meta og eru byggð á leitum í leitarvél Google.
Ástþór hefur varið 7.8 milljónum króna í auglýsingar á Google og Meta. Hann hefur því eytt fimmtán sinnum meira en næsti frambjóðandi í auglýsingar.
Á eftir honum eru Halla Hrund Logadóttir, Halla Tómasdóttir og Jón Gnarr sem hafa öll eytt meira en 500 þúsund síðustu níutíu daga. Athyglisvert er að Ásdís Rán hefur nánast engu eytt, eða 130 krónum, og þrátt fyrir það er hún með 0,3% meira fylgi en Ástþór samkvæmt nýjustu könnun Prósents.
Þegar spurður um muninn á eyðslu fyrirtækja og forsetaframbjóðanda í auglýsingar segir Andreas að aðstæður í forsetakosningum vera einstakar til samanburðar.
„Í forsetakosningum ertu að tala við alla og yfirleitt í fyrirtækjaauglýsingum ertu með ákveðinn markhóp sem verður til þess að þú getur takmarkað þig. En á móti eru þetta einstakar aðstæður sem myndast í auglýsingaheiminum þar sem þú þarft að ná til allra sem hafa kosningarétt. Það er rosa mikilvægt að skilaboðin séu almenn og nái til hópsins.“
Á mælaborði er hægt að sjá tíðni leita að nöfnum forsetaframbjóðenda á Google á tilteknu tímabili. Gildið er á skalanum 0 til 100 og gefur gildið 50 til kynna að nafnið sé helmingi vinsælla í leit en á fyrra tímabili. Samkvæmt myndinni hefur Halla Tómasdóttir aukist í leitarvinsældum síðustu daga á meðan aðrir forsetaframbjóðendur hafa haldist stöðugir.
Áhugavert er að Halla Hrund Logadóttir hefur haldist stöðug í leitinni frá upphafi mælingar og er eini forsetaframbjóðandinn sem hefur aldrei farið yfir gildið 50.