Aukið aðgengi að áfengi auki félagsleg vandamál

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segist ánægður með ákvörðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hefja athugun á netsölu áfengis. Segir hann auglýsingar netverslanna með áfengi vera grafalvarlegt mál. 

Mbl.is sagði frá því í síðustu viku að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd myndi hefja frumkvæðisathugun á netáfengissölu. Mikil umræða hefur átt sér stað um netverslanir sem selja áfengi, sérstaklega eftir að Hagkaup tilkynnti að verslunin myndi hefja netsölu áfengis í næsta mánuði.

Í samtali við mbl.is segist Guðmundur ánægður með ákvörðun nefndarinnar að taka málið fyrir og nefnir hann skaðsemi netverslananna t.a.m. í gegnum auglýsingar sem birtast á netinu.

„Mér finnst sérstaklega alvarlegt að það beinist að börnum. Það grafalvarlegt mál lýðheilsulega séð, bara vegna réttinda barna til heilsusamlegs lífs og umhverfis.“

Guðmundur segir það mikilvægt að þingið fjalli um málið og meta þurfi hvort að netverslanir sem afgreiði áfengi hér á landi standist lög. Skiptar skoðanir hafa verið á milli manna þar sem talað hefur verið um óskýran lagaramma, en þó einhverjir sem segja lagarammann skýran og starfsemina ólöglega.

Skýra þurfi lögin út frá lýðheilsusjónarmiðum

Guðmundur segir að ef óskýrleiki sé í lögunum, þurfi að skýra þau út frá lýðheilsusjónarmiðum og standa vörð um þá stefnu sem hafi verið í lýðheilsumálum.

„Vegna þess að aukið aðgengi að áfengi, það hefur sýnt sig og það sýna allar rannsóknir að það eykur félagsleg vandamál og er stórt heilsufarslegt vandamál. Ofbeldi í samböndum eykst og svo eru ýmsir þættir sem geta tengst ráðstöfunartekjum fólks og svo framvegis. Af þeirri ástæðu þá finnst mér mjög mikilvægt að, ef að það er þörf á einhverjum lagabreytingum, að þær fari þá í þá átt,“ segir Guðmundur og bætir við:

„Það hlýtur að vera hlutverk hins opinbera að tryggja að lýðheilsusjónarmið séu í forgrunni og að við reynum frekar að draga úr félagslegum vandamálum heldur en hið gagnstæða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka