Ferðafólk sem var á göngu inn með Þiðriksvallavatni, inn af Hólmavík, óskaði eftir aðstoð Björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hólmavík klukkan hálf eitt í dag.
Fólkið var á göngu inn eftir vatninu þar sem landið hallaði niður að klettabrún ofan vatns. Laus jarðvegur olli því að öðru þeirra hafði skrikað fótur og fallið á grúfu, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.
Þar sem stutt var fram á klettabrún og milli 10 til 15 metra fall niður klettana og jarðvegurinn undir þeim laus þá treystu þau sér ekki til að hreyfa sig án aðstoðar.
Björgunarsveitin fór á staðinn með fjallabjörgunarbúnað, settu upp tryggingar fyrir línu og fetaði björgunarmaður sig í línu niður til þeirra.
Konan lá á grúfu með örlitla handfestu og hafði hún smá fótfestu, til að koma í veg fyrir að hún myndi renna af stað. Var fólkið tekið upp í línu á öruggan stað og fengu svo far með lögreglu að bíl þeirra. Þeim varð ekki meint af, en ljóst er þarna stóð tæpt að illa færi, að sögn Landsbjargar.