Efstu frambjóðendur takast á í kappræðum

Búast má við líflegum kappræðum á fimmtudaginn. Streymi af kappræðunum …
Búast má við líflegum kappræðum á fimmtudaginn. Streymi af kappræðunum verður birt klukkan 16 á mbl.is. Samsett mynd/Brynjólfur Löve

Morgunblaðið og mbl.is munu standa fyrir kappræðum sem streymt verður á vef mbl.is klukkan 16 á fimmtudaginn. Aðeins fáeinir dagar eru til kosninga og ætti enginn að láta þessar kappræður fram hjá sér fara.

Þeir frambjóðendur sem mældust með yfir 10% fylgi í skoðanakönnun Prósents sem birtist á mánudag munu taka þátt í kappræðunum. Það eru frambjóðendurnir Katrín Jakobsdóttir, Halla Tómasdóttir, Halla Hrund Logadóttir, Baldur Þórhallsson og Jón Gnarr. 

Blaðamennirnir Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson verða þáttastjórnendur og munu spyrja frambjóðendur krefjandi spurninga og vænta má líflegra umræðna. Eins og fyrr segir þá verða kappræðurnar aðgengilegar öllum á mbl.is klukkan 16 á fimmtudag.

Í tilefni forsetakosninganna hefur Morgunblaðið og mbl.is ferðast í kringum landið og haldið opna forsetafundi með fyrrnefndum frambjóðendum. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og greinilegt að áhugi landsmanna á frambjóðendunum og því sem þeir hafa fram að færa er ósvikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert