Greina myrkurgæði til að fjölga túristum

Ferðaþjónustufyrirtæki í Rangárþingi vilja fá ferðamenn til að staldra við …
Ferðaþjónustufyrirtæki í Rangárþingi vilja fá ferðamenn til að staldra við og njóta norðurljósa þar í stað þess að bruna til Reykjavíkur. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Við vonumst til að þetta muni bæta samkeppnisforskot okkar gagnvart öðrum svæðum,“ segir Bárður Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Lava Center.

Bárður hefur ásamt öðrum ferðaþjónustuaðilum í Rangárþingi fundað með sveitarstjórnum þar um aðgerðir sem eiga að efla vetrarferðaþjónustu á svæðinu til framtíðar. Hugmyndir eru á lofti um að láta greina myrkurgæði í Rangárþingi og fá alþjóðlega vottun sem nýst gæti til markaðssetningar.

Lagt er upp með að þessi vinna geti einnig bætt lífskjör íbúa og stuðlað að hagræðingu í rekstri sveitarfélaganna.

Bárður segir að mikil tækifæri séu til að fá fleiri ferðamenn til að gista í Rangárþingi.

„Það eru gríðarlega margar ferðir skipulagðar frá Reykjavík. Við höfum séð að fólk er að ferðast um Suðurland en brunar svo í bæinn til að fara í norðurljósaferð þaðan. Það er auðvitað galið, hvort sem horft er til umhverfissjónarmiða, tíma eða upplifunar. Betra væri auðvitað að vera á hóteli hér og stíga út þegar rétta stundin rennur upp, eins og gert hefur verið á Hótel Rangá um langt skeið.“

Umræddir ferðaþjónustuaðilar hafa sent Rangárþingi ytra og Rangárþingi eystra erindi þar sem óskað er eftir því að vinna við þetta hefjist formlega. Greina á myrkurgæði og huga að gerð ljósgæðastefnu. Segir Bárður að ef þessi áform verði að veruleika verði hægt að sækjast eftir svokölluðu Dark Sky Certificate, vottun sem óhagnaðardrifin samtök um að auka myrkurgæði í heiminum veita.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert