Hæsta meðaleinkunn í sögu skólans

Alexander Logi fékk hæstu meðaleinkunn í sögu skólans.
Alexander Logi fékk hæstu meðaleinkunn í sögu skólans. Ljósmynd/Aðsend

Alexander Logi Chernyshov Jónsson útskrifaðist sem dúx úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja með meðaleinkunnina 9,97, sem er hæsta meðaleinkunn í sögu skólans.

118 nemendur útskrifuðust úr skólanum síðasta föstudag, þann 24. maí, en Alexander hlaut fjöldann allan af viðurkenningum og verðlaunum í athöfninni, þar á meðal raungreinaverðlaun HR.

Alexander segir í samtali við mbl.is að hann hafi fundið fyrir létti þegar hann var tilkynntur sem dúx á athöfninni, enda væri ólíklegt að einhver annar hefði getað fengið hærri meðaleinkunn en hann.

Þó segir hann að það að verða dúx hafi ekki endilega alltaf verið markmiðið.

„Aðallega bara metnaður“

Spurður hvernig hann fór að því að dúxa segir Alexander: „Þetta er aðallega bara metnaður og að skipuleggja sig vel. Ég æfði sund á tímabili með níu sundæfingar á viku. Þú þarft að forgangsraða því sem er mikilvægt.“

Hann bætir við að mikilvægt sé að vera tilbúinn í kennslustundum og hlusta vel til þess að standa sig vel á prófum.

Alexander segist hafa mikinn áhuga á stærðfræði og því stefnir hann á að læra fjármálaverkfræði í Háskólanum í Reykjavík.

Þrír vinir í röð sem verða dúx

Alexander segist vera í mjög metnaðarfullum vinahópi og að, að sér meðtöldum, hafi síðustu þrír dúxar skólans verið hluti af þeim hópi.

„Við erum hérna þrír í röð, komum allir úr sama vinahópnum og æfðum allir sund,“ segir hann og bætir við að vinahópurinn vonist til þess að annar þeirra muni líka útskrifast sem dúx á næsta ári.

Alexander segir vinahópinn hafa oft keppst um hver myndi standa sig best á prófum en að þeir hafi þó ávallt stutt við hver annan. Vinirnir hafi alltaf verið tilbúnir til þess að hjálpa hver öðrum við skólaverkefni og Alexander segir að það sé mikilvægt að hafa svona vini með sér í náminu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert