Á Kvennadeild Landspítalans vantar nauðsynlega ný tæki til legspeglunar sem munu létta bæði læknum og skjólstæðingum lífið. Með nýju tækjunum er hægt að framkvæma speglanir í staðdeyfingu en áður var nauðsynlegt að svæfa þær konur sem þurftu á legspeglun að halda. Kvensjúkdómalæknirinn Ragnheiður Oddný Árnadóttir, sem bæði vinnur á kvennadeild og situr í stjórn Lífs, mætti í Dagmálsmyndver Árvakurs til að segja frá góðgerðarhlaupinu.
„Við erum mjög stolt af því að halda þetta hlaup og um leið hvetja til hreyfingar. Hlaupið verður frá bragganum í Nauthólsvík á fimmtudag klukkan 18. Við erum með tímatöku í fimm og tíu kílómetrum en einnig er hægt að fara í fimm kílómetra göngu. Það geta nánast allir verið með,“ segir hún.
„Allur ágóði rennur til Lífs. Við vorum heppin að fá góða bakhjarla, Útilíf og Sjóvá. Það verða verðlaun í boði og fullt af útdráttarvinningum,“ segir Ragnheiður og hvetur fólk til að mæta í hlaupið.
„Veruleikinn er þannig að ýmis málefni þurfa á styrktarfélögum að halda, eins og sést í Reykjavíkurmaraþoninu, en við höfum verið með þar líka,“ segir hún.
„Flestar konur hafa þurft á þjónustu kvennadeildarinnar að halda, í tengslum við meðgöngu, fæðingu, sængurlegu eða vegna meðhöndlunar kvensjúkdóma og annarra vandamála í kvenlíffærum,“ segir Ragnheiður og tekur því fagnandi að geta enn bætt þjónustuna með nýju tækjunum. Nánar er rætt við Ragnheiði í Dagmálum sem áskrifendur geta nálgast hér.
Hægt er að skrá sig í hlaupið á netskraning.is.