„Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að skilmálar bæði fasteignalána og neytendalána séu það skýrir að fólk viti hvað það er að undirgangast og það er alveg lágmarkskrafa að fjármálafyrirtækin standi almennilega að því.“
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra um úrskurð EFTA-dómstólsins sem kveðinn var upp í síðustu viku.
Í úrskurðinum segir að orðalag skilmála í lánssamningum banka með breytilegum vöxtum á Íslandi sé ekki gegnsætt. Þurfi almennir neytendur, með fullnægjandi fyrirsjáanleika, að geta áttað sig á þeim skilyrðum og málsmeðferð sem liggi til grundvallar vaxtabreytingum.
Sigurður Ingi segir í samtali við mbl.is að skilmálar lánssamningana séu augljóslega með of mismunandi hætti.
„Þannig að hlutirnir eru því miður ekki alveg nægilega hreinir hvað það varðar.“
Segir Sigurður að tíminn þurfi að leiða í ljós næstu skref málsins.
Það er ekkert sem þú sérð núna að þú sem ráðherra getir gert í þessu máli?
„Nei, í rauninni ekki.“