Landris við Svartsengi heldur áfram

Um 20 milljónir rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið.
Um 20 milljónir rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Hættumat Veðurstofunnar vegna landris við Svartsengi er óbreytt. Gögn sýna að landris við Svartsengi heldur stöðugt áfram og eru miklar líkur á nýju kvikuhlaupi eða eldgosi.

Um 20 milljónir rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið frá 16. mars. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

400 jarðskjálftar síðustu sjö daga

400 jarðskjálftar hafa mælst síðustu sjö daga nærri Sundhnúksgígaröðinni. Stærsti skjálftinn var 2,2 að stærð við Sundhnúk.

Í gær mældust hátt í 100 jarðskjálftar á svæðinu og það sem af er degi í dag hafa mælst tæplega 70 skjálftar. 

Frá því að eldgosinu lauk þann 9. maí hafa mælst á milli 40 og 80 skjálftar á dag, að frátöldum 24. og 25. maí þegar töluvert færri skjálftar mældust vegna hvassvirðis. 

Engar þrýstingsbreytingar síðustu daga

Í síðustu viku mældust minniháttar þrýstingsbreytingar í skamman tíma í borholum HS Orku í Svarstengi. Slíkar breytingar hafa ekki mælst síðustu daga. 

Gera má ráð fyrir því að meiri þrýstingsbreytingar muni mælast í aðdraganda kvikuhlaupsins ásamt því að breytingar verði í öðrum mælikerfum.

Fyrirvari á eldgosi gæti verið stuttur

Þar sem jarðskorpan á umbrotasvæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells er mikið sprungin er líklegt að kvika eigi greiða leið til yfirborðs og mun ekki endilega fylgja mikil skjálftavirkni á þeim umbrotum.

Fyrirvarinn á eldgosi gæti verið mjög stuttur eða jafnvel enginn. Því er mjög varasamt að vera á ferðinni á svæði 3 eins og skilgreint er á hættumatskorti Veðurstofunnar.

Veðurstofan varar við ferðum á svæði 3 á hættumatskorti Veðurstofunnar.
Veðurstofan varar við ferðum á svæði 3 á hættumatskorti Veðurstofunnar. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert