„Þó að við séum búin að lofa upp í ermina á okkur nokkrum sinnum um að hún [aðgerðaáætlun í loftslagsmálum] sé alveg að koma út þá er hún ekki orðin of sein.“
Þetta sagði Elín Björk Jónasdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, í ávarpi sínu á Loftslagsdeginum í Hörpu í dag. Hún segir áætlunina verða birta í aðgengilegu formi á heimasíðunni co2.is og að hægt verði að skoða aðgerðir eftir málaflokkum.
Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær endanleg áætlun verður kynnt.
Eins og standi séu 147 greinar í nýju áætluninni en þær verði alla vega 148. Útgáfa áætlunarinnar sé þó ekki lokapunktur vinnunnar heldur upphafið að vinnu næstu ára.
„Þetta verður ekki eitt stórt plagg, einhver doðrantur, sem verður stungið ofan í skúffu og ekki litið á fyrr en eftir tvö ár,“ sagði Elín.
Kvaðst hún vita að nýrrar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum væri beðið með óþreyju en að starfsmenn ráðuneytisins væru einnig orðnir óþreyjufullir að koma henni út.
Gerð og framfylgni slíkrar áætlunar sé aftur á móti ekki einföld og því mikilvægt að standa rétt að henni, enda sé hún ekki bara plagg með box til að haka við.
„Loftslagsmálin eru alls staðar og öll mál eru loftslagsmál.“
Það sé einmitt það sem starfsmenn ráðuneytisins hafi reynt að gera við gerð áætlunarinnar. Í áætluninni sé m.a. litið til almenningssamganga, orkuskipta og aukinnar bindingar eins og t.d. með skógrækt eða endurheimt votlendis.
„Þess vegna skiptir ekki máli hvort við erum að tala um almenningssamgöngur eða sjávarútveginn eða bóknám í grunnskólum, eða hvað það er. Við þurfum alls staðar að vera með loftslagsgleraugun.“
Horfa þurfi til samverkandi þátta aðgerðanna og áhrif þeirra á samfélagið að sögn Elínar. Til að mynda myndi rafvæðing hafnarinnar á Vopnafirði ekki einungis rafvæða sjávarútveginn heldur sömuleiðis nærsamfélagið.
„Þá er kannski hægt að horfa á það af alvöru að rafvæða skólabílana. Það má hugsa sér að hægt verði að hafa rafvæddar almenningssamgöngur á norðausturhorninu ef hafnirnar eru komin með innviði.“
Hægt væri að huga að svipuðu við Faxaflóahafnir og þar með gera hleðslustöðvar fyrir strætisvagna. Hægt væri að fjölga strætóferðum til muna þar sem rafmagn sé mun ódýrara en olía.
„Þetta er bara ein aðgerð og þær eru 148.“