Lyfjaakstursmál fer fyrir Hæstarétt

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Ófeigur

Hæstiréttur hefur samþykkt málskotsbeiðni ríkissaksóknara sem vill þyngja refsingu konu sem keyrði próflaus og undir áhrifum slævandi lyfja. Samþykkir Hæstiréttur beiðnina vegna þess að málið kunni að hafa verulega þýðingu í skilningi laganna þegar kemur að akstri undir áhrifum slævandi lyfja.

Héraðsdómur hafði áður dæmt konuna til að greiða 180.000 króna sekt en svipti þó hana ekki ökuréttindum sínum. Staðfesti Landsréttur síðar þann dóm.  

Aksturinn ekki mjög vítaverður

Konan, sem áður hafði verið svipt ökurétti og var próflaus, bakkaði á kyrrstæða bifreið í febrúar 2022. Við blóðsýnatöku kom í ljós að konan var undir áhrifum slævandi lyfja.

Héraðsdómur Norðurlands eystra sakfelldi konuna fyrir að keyra án ökuréttinda og undir áhrifum lyfja og var dæmd til að greiða 180.000 krónur í sekt. Var konan hins vegar ekki svipt aftur ökuréttindum sínum, sem hún hafði hlotið á ný í millitíð, af þeim sökum að hvorki var um að ræða áfengis- eða vímuefnaakstur og hafði akstur hennar umrætt kvöld ekki verið mjög vítaverður.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar í júní 2023 þar sem krafist var þess að refsing konunnar yrði þyngd og hún svipt ökurétti sínum.

Landsréttur staðfesti hins vegar úrskurð héraðsdóms í mars 2024. Segir í niðurstöðu Landsréttar að fallist sé á með héraðsdómi að akstur konunnar hafi ekki verið mjög vítaverður þegar slysið átti sér stað.  

Ríkissaksóknari leitaði svo leyfis Hæstaréttar í apríl til að áfrýja dómi Landsréttar. Beiðni um áfrýjunarleyfi var samþykkt af Hæstarétti og segir í ákvörðun réttarins að svipting ökuleyfis vegna aksturs undir áhrifum slævandi lyfja kunni að hafa verulega almenna þýðingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert