Mikill áhugi á atvinnuuppbyggingu á Hólmsheiði

Vonast er eftir að framkvæmdir geti hafist næsta sumar á …
Vonast er eftir að framkvæmdir geti hafist næsta sumar á Hólmsheiði. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Hólmsheiði er tilgreint í aðalskipulaginu sem eitt af athafnasvæðum okkar og við höfum reynt að koma því af stað í dálítinn tíma,“ segir Óli Örn Eiríksson, teymisstjóri atvinnu- og borgarþróunar hjá Reykjavíkurborg, í samtali við mbl.is

„Það hefur verið flókið vegna þess að svæðið er í grennd við vatnsverndarsvæði borgarinnar,“ segir Óli. Yfirgripsmikla rannsóknir hafa staðið yfir til að tryggja að uppbygging hefði ekki neina hættu í för með sér.

Reykjavíkurborg hélt kynningarfund í síðustu viku þar sem Óli Örn fór yfir nokkur athafnasvæði sem eru í þróun innan borgarmarkanna.

Óvenjuleg aðferðafræði

„Í fyrra auglýstum við svo eftir áhugasömum fyrirtækjum til að flytja starfsemi sína á Hólmsheiði og það voru 66 aðilar sem svöruðu auglýsingunni sem sýndu mjög mikinn áhuga,“ segir Óli.

Borgin hafi svo valið sex fyrirtæki til að koma með í fyrsta áfangann til þess að búa til deiliskipulag sem passar við þeirra hugmyndir. „Svo þau geti hannað sína starfsemi inn í fyrstu lóðirnar þannig fyrstu ábúendurnir myndu byggjast hratt,“ segir Óli.

Það sem gerist oft við gerð deiliskipulags er að þegar fyrirtæki kaupa lóðir þarf að breyta skipulaginu svo það passi við starfsemi fyrirtækjanna sem koma á lóðirnar.

Óli segir þetta óvenjulega aðferðafræði en að það skili sér vonandi í flottari og hraðari uppbyggingu. Aðspurður segir hann að fleiri fyrirtæki komi svo síðar á svæðið á eftir þessum fyrirtækjum.

„Þessi [fyrirtæki] sem við höfum talað við eru sum að skoða að vera með vöruhús og lagera,“ segir Óli.

Auglýsa lóðir vonandi í sumar

„Áhuginn er klárlega til staðar,“ segir Óli. Aðspurður segir hann áhugann líklegast skýrast af því að þéttingarreitum fari fækkandi og að lóðarhafar séu í auknum mæli að breyta atvinnulóðum í íbúðarlóðum sem leiði til þess að plássfrekari fyrirtæki leita á jaðar byggðarinnar.

„Við erum að vonast til þess að auglýsa skipulagið til kynningar í sumar og gæti verið samþykkt á þessu ári og þá gætu framkvæmdir við gatnagerð verið næsta sumar,“ segir Óli. Þá geti fyrirtæki vonandi í kjölfarið á því hafið grófvinnu.

Óli nefnir einnig að margar byggingarhæfar lóðir séu á þéttingarsvæðum í borginni.

„Ég sé mikið af umsóknum um breytingar á lóðum á Hálsunum,“ segir Óli. Nefnir hann sem dæmi um að viðbygging við húsnæði Össurs var reist á síðustu misserum. Jafnframt hafi Ölgerðin stækkað byggingu sína.

„Svo eru nokkuð stórar lóðir þarna sem eru lítið nýttar,“ segir Óli. Nefnir hann að lítil framleiðsla fari fram í byggingu Mjólkursamsölunnar á Hálsunum.

Atvinnuhúsnæði munu rísa á allra næstu árum á Bústaðavegi við …
Atvinnuhúsnæði munu rísa á allra næstu árum á Bústaðavegi við Sprengisand. mbl.is/Árni Sæberg

„Lóðirnar norður af Sprengisandi eru þrjár og við seldum þær fyrir nokkrum árum síðar,“ segir Óli. Lóðirnar eru meðal þeirra sem eru nefndar í kynningu Reykjavíkurborgar sem svigrúm er til uppbyggingar atvinnustarfsemi.

„Veitur þurfti svo að fara í miklar innviðabreytingar á lögnum en þeim er lokið og lóðirnar eru byggingarhæfar,“ segir Óli. Rafkaup hafi keypt eina lóð og Slippfélagið hinar tvær lóðirnar.

„Við erum búin að úthluta þeim og þær eru skipulagðar fyrir atvinnuhúsnæði sem geta verið þrjú til fjögur þúsund fermetra verslunar- og þjónustuhúsnæði,“ segir Óli.

„Nú er bara spurning hvenær fyrirtækin fara að byggja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka