Umtalsvert færri hafa greitt utankjörfundaratkvæði nú en fyrir kosningarnar árið 2020 og allt stefnir í að utankjörfundarkjörsókn verði mun minni en árið 2016.
Þannig höfðu 22.509 greitt atkvæði um klukkan hálf fimm í dag. Á sama tíma höfðu 33.643 greitt atkvæði í kosningunum árið 2020 en þá voru greidd 52.519 utankjörfundaratkvæði í heild þegar upp var staðið. Í heild greiddu rúmlega 42 þúsund manns utankjörfundaratkvæði árið 2016. Þá var slagur um embættið líkt og nú.
Á kjörskrá árið 2016 voru 244.904 á kjörskrá, árið 2020 voru 252.200 en á kjörskrá nú eru 267.528.
Kjörstjóri segir allar líkur á því að umtalsvert færri utankjörfundaratkvæði verði greidd í forsetakosningunum nú en í síðustu tveimur kosningum. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, telur þó ólíklegt að það sé til marks um minni áhuga á forsetakosningunum nú en áður.
Ásdís Halla Arnardóttir, kjörstjóri hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu segir að kjörsókn sé mun minni en búist var við og að ólíklegt sé að fjöldi utankjörfundaratkvæða verði í líkingu við þann sem var í síðustu forsetakosningum.
„Ein breytan kann að vera sú að síðustu kosningar voru 27. júní en nú eru þær 1. júní og því færri komnir í sumarfrí,“ segir Ásdís Halla.
Ólafur Þ. Harðarson segir það tilhneigingu í kosningum um allan heim að utankjörfundaratkvæðum fjölgi. Þrátt fyrir það telur hann ólíklegt að færri greidd utankjörfundaratkvæði en áður sé til marks um minni áhuga á forsetakosningunum nú. Hann býst við því að kosningaþátttakan verði góð þegar upp er staðið.
„Það að kosningarnar eru mánuði fyrr getur skipt máli upp á sumarfrí að gera. En einnig er hugsanlegt að margir séu ekki búnir að gera upp hug sinn og vilja ekki greiða atkvæði fyrr en á kjördag,“ segir Ólafur.
Hann bendir á að í forsetakosningum árið 2016 hafi 25% kjósenda gert upp hug sinn á kjördag eða dagana á undan. Eins hafi helmingur tekið ákvörðun í vikunni fyrir kjördag og fjórðungur á kjördaginn sjálfan í alþingiskosningum árið 2021.
Ólafur nefnir að mögulega geti hluti kjósenda hugsað sér að kjósa taktískt í kosningunum. Þannig hafa 42% sagt í könnun Maskínu að þeir vilji ekki Katrínu Jakobsdóttir sem forseta. Því kunni mál að fara þannig að fólk flykki sér á bakvið þann frambjóðanda sem sé líklegastur í að skáka Katrínu.
Hins vegar er ekki augljóst hver það ætti að vera þar sem Baldur Þórhallsson, Halla Tómasdóttir og Halla Hrund Logadóttir mælast á svipuðu róli í skoðanakönnunum.
„Það kann að vera að hluti kjósenda sé að bíða eftir því alveg fram að kjördegi hvort einhver þessara þriggja slíti sig frá hinum í könnunum og velji hann sem sinn frambjóðanda gegn Katrínu,“ segir Ólafur.
„Í þessu samhengi má þó benda á að svipað var uppi á teningnum árið 1980. Ljóst var að Vigdís og Guðlaugur voru efsts en aðrir frambjóðendur með minna fylgi samkvæmt skoðanakönnunum. Hins vegar gerðist það svo alls ekki og niðurstöður kosninganna voru í takti við skoðanakannanir,“ segir Ólafur.