Kosningateymi Höllu Hrundar Logadóttur viðurkennir nú að hafa notað myndskeið kvikmyndatökumannsins Bjarka Jóhannssonar án leyfis fyrir auglýsingu og hefur beðið hann afsökunar. Aukinheldur var afnotaréttur myndskeiðsins upphaflega keyptur af fyrirtækinu 99 ehf. vegna myndbandsgerðar fyrir Orkustofnun.
Þetta kemur fram í skriflegu svari framboðsins við fyrirspurn mbl.is.
Bjarki greindi fyrst frá því í samtali við mbl.is í gær að myndskeið í hans eigu væri í auglýsingu Höllu Hrundar án leyfis. Þar að auki sagði Bjarki að myndskeiðið hefði áður verið notað, með leyfi, í myndbandi hjá Orkustofnun. Eins og kunnugt er þá er Halla Hrund orkumálastjóri en er í leyfi vegna framboðsins.
Kosningateymi Höllu sagði þá myndbandið hafa komið úr alþjóðlegum myndabanka en sagði ekkert um fullyrðingar Bjarka um að myndskeiðið væri tekið í leyfisleysi eða þá að það hefði verið notað fyrir Orkustofnun. Framboðið viðurkennir það nú og hefur beðið Bjarka afsökunar.
Framboðsteymið sendi í morgun kvittun á fjölmiðla, í kjölfar þess að Bjarki bað um að fá að sjá þær, sem sýndi að einhver innan teymisins væri með áskrift að alþjóðlegum myndabanka. Viðurkenndi teymið þó einnig að ekki hafi verið fengið leyfi fyrir notkun á myndskeiðinu fyrir auglýsingu Höllu.
„99 ehf. er skráð fyrir áskriftinni að myndabankanum, sem er fyrirtæki í eigu Óskars Arnar Arnarsonar. Óskar er sjálfboðaliði í framboði Höllu Hrundar. Myndefnið var sótt og hakað við leyfi á síðasta ári vegna verkefnis sem 99. ehf. vann í verktöku fyrir Orkustofnun,“ segir í svari kosningateymis Höllu Hrundar við fyrirspurn mbl.is.
Mbl.is hefur áður fjallað um tengsl 99 ehf. við Höllu Hrund en fyrirtækið þáði 7,6 milljónir í greiðslur frá Orkustofnun á síðustu 16 mánuðum fyrir myndbandagerð og annan kostnað. Óskar Örn Arnarson er lykilmaður í kosningateymi Höllu samkvæmt svörum frá framboðinu við fyrirspurn mbl.is í upphafi kosningabaráttunnar.
Framboðsteymið segir enn fremur að myndefnið hafi verið sótt aftur úr "My Downloads" á Envato síðunni „en mistökin eru þau að ekki var hakað við nýtt leyfi.“
„Taka skal skýrt fram að upphaflega leyfið sótti verktakinn 99. ehf.. Óskar Örn tekur fulla ábyrgð á þessum mistökum. Framboðið hefur beðist afsökunar og mistökin leiðrétt. Þá hefur Óskar Örn rætt við Bjarka Jóhannsson og boðist til að koma til móts við hann. Við ítrekum að okkur þykir leitt að þessi mistök hafi átt sér stað,“ segir í svari framboðsins.