„Tímarnir hafa breyst og það er kominn tími til þess að taka umræðu á forsendum nútímans,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra spurður um netsölu á áfengi að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Matvöruverslunin Hagkaup bættist nýverið í hóp fyrirtækja sem munu selja áfengi til einstaklinga í gegnum netverslun. Aðrar verslanir á borð við Costco, Smáríkið og Santé eru nú þegar að stunda slík viðskipti.
„Pólitísk afstaða mín til málsins er að netverslun er sjálfsögð og eðlileg viðbót við ÁTVR,“ segir Bjarni. Hlutverk ÁTVR og neysluvenjur fólk hafi breyst verulega á síðustu árum.
„Það er ekki hægt að tala um ÁTVR sem mikla aðgangshindrun þegar við erum að reyna að takmarka aðgengi að áfengi og setja það, í nútímanum, í sama samhengi og áður var,“ segir Bjarni. Nefnir hann að í dag séu töluverður fjöldi með vínveitingarleyfi um alla borg.
„Það er varla hægt að koma sér niður á einum einasta bletti á höfuðborgarsvæðinu án þess að geta gengið á örfáum mínútum á veitingastað eða krá sem er með vínveitingarleyfi. Það er hið raunverulega aðgengi að áfengi.“
Bjarni segir þetta ekki hafa verið svona áður fyrr og voru vínveitingarleyfi sjaldgæfari þá.
Aðspurður segist Bjarni telja það mikilvægt að skerpt verði á reglum um netsölu á áfengi.
„Þeir sem hafa áhuga á að stunda viðskipti með þessa vöru verða að fá betri svör frá löggjafanum um þær reglur sem um þetta eiga að gilda,“ segir Bjarni.
„Til þess var frumvarpið á sínum tíma hugsað en það náðist ekki samstaða um það.“ Vísar Bjarni til frumvarpa þingmanna og dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins síðustu missera.
Bjarni segir það sanngjarnt og eðlilegt að innlendir aðilar spyrji sig að því hvers vegna þeir geti ekki notið sambærilegra réttinda og netverslanir á meginlandi Evrópu.