Ósátt við framgang borgarinnar og safna undirskriftum

Sylvía Svavarsdóttir er formaður foreldrafélags Langholtsskóla. Myndin er samsett.
Sylvía Svavarsdóttir er formaður foreldrafélags Langholtsskóla. Myndin er samsett. Ljósmynd/Sigurður Bogi, Aðsent

Foreldrafélög Laugalækjarskóla, Langholtsskóla og Laugarnesskóla hafa sett undirskriftalista í dreifingu til þess að mótmæla ákvörðunum borgaryfirvalda um að falla frá viðbyggingum við skólana þrjá. Sylvía Svavarsdóttir, formaður foreldrafélags Langholtsskóla segir mikla vinnu hafa farið í ferlið allt og félögin vilji að íbúalýðræði sé virt.

 „Við erum búin að leggja heilmikla vinnu í að vinna umsögn fyrir sviðsmynd eitt, tvö og þrjú og búið að samþykkja sviðsmynd eitt. Og svo náttúrulega, eins og við vitum öll, komið að sviðsmynd fjögur og þau ákveða að kynna hana fyrir okkur,“ segir Sylvía í samtali við mbl.is

„Við erum búin að segja hvað við viljum, við viljum fá sviðsmynd eitt. Við viljum láta byggja við alla skólana og það er greinilega ekki verið að hlusta á okkur. Við viljum bara láta heyra í okkur betur. Við náttúrulega skilum inn umsögnum öll skólaráðin. En við viljum bara hnekkja á þessu með því að vera með undirskriftalista, Líka bara til að ítreka það hvað við erum ekki ánægð með þetta.“

Þörf á viðbyggingu þrátt fyrir breytingu

Sylvía segist ósammála því að því fylgi of mikil áhætta að fara í viðbyggingu, heldur sé það hættusamt fyrir hverfið í heild að rugla í heild þess.   

„Og eins og fyrir Laugarnesi, það náttúrulega skiptist upp í tvö skólakerfi ef af þessu verður og þá náttúrulega brotnar þessi félagslega heild sem er í því hverfi.“

Þá sé ekki að vera að koma í veg fyrir þörf á viðbyggingu með uppbyggingu unglingaskóla líkt og mælt sé með í sviðsmynd fjögur.

„Eins hér í Langholtsskóla, þó að við losnum við unglingadeildina út að þá þarf samt sem áður að byggja við skólann og það strax, því við erum með tíu færanlegar kennslustofur við húsið. Þó að Langholtsskóli sé ekki í eins slæmu ásigkomulagi, ekki svo vitað sé, eins og skólarnir niðri í Laugarnesi að þá er bara löngu kominn tími á viðhald og að það sé byggt við. Svo er náttúrulega verið að opna á, með þessari sviðsmynd fjögur, að byggður er unglingaskóli. Þá ætla þeir að taka krakkana af Orkureitnum, sem sagt börnin sem flytja á Orkureitinn og hluta af Skeifunni, inn í Langholtsskóla og það eykur bara vandann þar. Það eru börn sem áttu upphaflega að fara í Álftamýrarskóla. Það er alveg ljóst að þrátt fyrir að þeir myndu byggja unglingaskóla þá þarf að byggja við Langholtsskóla, það er deginum ljósara,“ segir Sylvía.

„Það er til ráð við öllu nema ráðaleysi“

Hún segist vona að sem flestir skrifi undir áskorunina.

„Óskastaðan er náttúrulega bara að íbúalýðræðið sé virt, enda erum við búin að skila áður, yfir þúsund undirskriftum. Það var búið að samþykkja í skóla- og frístundaráði að falla frá sviðsmynd tvö og þrjú og fara eftir sviðsmynd eitt, sem er þá að byggja við alla skólana í þeirri mynd sem þeir eru, í þeirri skólagerð sem þeir eru. Við náttúrulega bara treystum því og erum bara búin að vera róleg, og bíða, í tvö ár, en það hefur ekkert gerst. Ég get bara sagt ykkur það að það er til ráð við öllu nema ráðaleysi. Það að Reykjavíkurborg haldi því fram að það sé ekki hægt að byggja við alla skólana og viðhalda þeim, það er bara galið,“ segir Sylvía.  

„Við hljótum að geta fundið út úr því hvernig við getum byggt við skólana hægt og rólega en byrjað á því strax.“

„Við lásum þetta bara á netmiðlum,“ segir Sylvía um fregnirnar af breytingunni.

„Það var enginn í þessari nefnd, sem fór yfir þetta mál, það var enginn  úr skólasamfélaginu í nefndinni. Hvorki starfsfólk, kennarar, né nemendur, né foreldrar.“

Þegar þessi grein er skrifuð hafa um 600 manns skrifað undir áskorunina, en hana má finna með því að smella hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert