„Þetta þarf ekki að vera leiðinlegt“

Birgitta Steingrímsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir Íslendinga mjög meðvitaða um …
Birgitta Steingrímsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir Íslendinga mjög meðvitaða um umhverfismál. Samsett mynd/Árni Sæberg

„Ég myndi klárlega segja að það sé rosalega mikið búið að breytast síðust fimm ár,“ segir Birgitta Steingrímsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, um viðhorf til umhverfis- og loftslagsmála meðal almennings. 

Í erindi sínu á Loftslagsdeginum í Hörpu í dag ræddi Birgitta mikilvægi áhuga og ástríðu einstaklinga fyrir loftslagsmálum á breytingar til hins betra fyrir umhverfinu.

Mannveran sé félagslynd og leikreglur og „norm“ skapist í þeim hópum sem fólk hrærist í. Gleði og áhugi smiti almennt út frá sér og það sé engin undantekning þegar komi að viðhorfum og vitund um umhverfis- og loftslagsmál.

„Auðvitað bera einstaklingar ekki ábyrgð á því að árangur náist í loftslagsmálum. Þetta er dans á milli okkar allra: fyrirtækja, stjórnvalda og einstaklinga. En gleymum því ekki að í grunninn eru fyrirtæki og stjórnvöld einstaklingar,“ segir Birgitta í samtali við mbl.is.

Margir upplifi máttleysi í loftslagsaðgerðum

Spurð hvort þegar hafi áunnist mikið við að breyta „norminu“ eða venjum þegar kemur að viðhorfum til umhverfismála svarar hún játandi. 

„Við sjáum það t.d. í umhverfiskönnun Gallup að Íslendingar eru mjög meðvitaðir um umhverfismál og þeir vilja breyta rétt.“ 

Hún nefnir sem dæmi skírnarveislu vinkonu sinnar fyrir fimm árum þar sem allar veitingar voru vegan, sem þótti ansi róttækt þá. Í dag séu aftur á móti mun færri sem kippi sér upp við slíkt. 

Aðspurð segir hún marga í dag upplifa einskonar máttleysi þegar komi að umhverfis- og loftslagsmálum. Það sé aftur á móti gífurlega valdeflandi að finna fyrir að maður sé sjálfur að hafa jákvæð áhrif á málstaðinn hvort sem það sé í starfi eða í nærsamfélagi.

Eðlilegt að loka á ógnina

Án þessa að draga úr alvarleika málsins hefur þetta verið gert að of þungu viðfangsefni sem fær þetta til að virðast óyfirstíganlegt fyrir „hinum almenna borgara?“

„Já ég held að það megi alveg segja það. Það eru bara eðlileg líffræðileg viðbrögð þegar þú heyrir svona hræðilegar fréttir og það er risastór ógn, jafnvel í framtíðinni, þá bara lokar þú. Það eru í alvörunni bara líffræðileg viðbrögð,“ segir Birgitta.

„Þannig ég held að við þurfum að passa svolítið hvernig við tölum um þetta. Við megum náttúrulega alls ekki draga úr alvarleikanum, en frekar einblína á aðgerðirnar. Hvað er hægt að gera?“

Þurfum að gera aðgerðirnar áhugverðar og aðlaðandi

„Ég held að við séum öll orðin frekar meðvituð um að það er þetta vandamál. En ókei, áfram með smjörið, einblínum á aðgerðirnar og reynum að gera þær þannig að þær séu áhugaverðar og aðlaðandi.“

Hún segir til að mynda mikilvægt að fyrirtæki einblíni á slíkar lausnir enda laði það ungt starfsfólk að vinnustöðum, enda beri stjórnvöld og fyrirtæki stærstu ábyrgðina þegar kemur að þessum aðgerðum.

„Þetta þarf ekki að vera leiðinlegt. Í alvöru að því það viðheldur okkur til lengri tíma. Ef það er leiðinlegt þá endist það ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert