„Tökum erfiðar ákvarðanir þó að einhverjir verði brjálaðir“

Loftlagsdagurinn fór fram í Hörpu í dag.
Loftlagsdagurinn fór fram í Hörpu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Erum við hætt við orkuskiptin?“ spurði Eyrún Gígja Káradóttir, verkefnastjóri Orkuseturs, í erindi sínu á Loftslagsdeginum í Hörpu í dag. Hún segir einu leiðina að sínu mati vera að banna innflutning á bensín- og dísilbílum.

„Ef við erum með sæti við borðið og við erum þetta litla land og við ætlum að vera fyrirmynd einhvers þá verðum við að gera eitthvað sem eftir er tekið,“ segir Eyrún í samtali við mbl.is að erindi sínu loknu.

Fór hún þar yfir valda þess að rafmagnsbílar verði síður fyrir valinu þegar kemur að sendibílum þrátt fyrir orkuskiptamarkmið. Á þessu ári hafa 927 sendibíla þegar verið fluttir til landsins en þar af eru aðeins 7% rafmagnsbílar. Langflestir sendibílar sem hingað eru fluttir eru dísilbílar.

Ákvörðun um að taka ekki þátt

Segir Eyrún ýmsar afsakanir notaðar til að réttlæta ákvörðunina um að skipta ekki í rafmagnsbíla: framboð, hagkvæmni, drægni og hleðsluinnviðir. Hún telji aftur á móti aðeins eina hindrun raunverulega liggja að baki: þá mannlegu.

„Það er alltaf verið að nota þessar hindranir sem afsökun. Bílarnir eru ekki með nægilega drægni, „ég er að bíða,“ en nú er raundrægni 200-400 km þannig það á ekki við. Hleðsluinnviðir þeir verða bara betri, þeir eru ekki fullkomnir alls staðar en hér á Suðvesturhorninu eru þeir orðnir mjög góðir.“

Segir hún skammtímahugsun einnig einkenna kaup á sendibílum á Íslandi þar sem rafbílar séu jú enn í hærri verðflokki. Einfalt reiknidæmi sýni aftur á móti að það borgi sig innan þriggja ára að fjárfesta í rafmagnsbíl. Hvað varði framboð leiði stutt netleit í ljós að nóg sé til á landinu. 

„Hvað er þá að stoppa okkur? Það er ákvörðunin um að taka ekki þátt,“ segir Eyrún. 

93 prósent innfluttra sendibíla í ár eru dísil- eða bensínbílar
93 prósent innfluttra sendibíla í ár eru dísil- eða bensínbílar

Rafbílastyrkur hafði engin áhrif

Hún segir marga eflaust velta fyrir sér hvort ekki megi rekja bróðurpart dísilbílakaupana til landsbyggðarinnar. Orkusetrið og rafbílastöðin hafi því farið í verkefni til að kanna rafbílainnviði fyrir norðan, en verkefnið hafi leitt í ljós að rafbílahæfni væri 100% jafnvel þrátt fyrir einstaklega kaldan vetur. 

Aðspurð kveðst hún frekar telja að um sé að ræða ákveðin viðhorf varðandi rafbílakaup en skort á ívilnunum frá ríkinu vegna rafbílakaupa þar sem styrkur til rafvæddra sendibíla hafi aukist með nýja kerfinu.

„Þannig að styrkurinn hefur aukist, en það hafði engin áhrif. Þannig við getum ekki sagt að þetta sé svona út af ívilnunarkerfinu.“

Eyrún telur mannleg viðhorf standa í vegi fyrir rafbílavæðingu.
Eyrún telur mannleg viðhorf standa í vegi fyrir rafbílavæðingu. mbl.is/Árni Sæberg

„Svona ákvarðanir þurfi að taka fyrir fólk

Segir Eyrún því mikilvægt fyrir stjórnmálafólk að taka róttæk og jafnvel tímabundið óvinsæl skref ef árangur eigi að nást í raforkuskiptunum. Ísland hafi færi á að gera stóra breytingu svo tekið verði eftir á alþjóðavísu, en oftar en ekki þurfi ríkisstjórnin að taka af skarið. 

„Svona ákvarðanir þarf því miður bara að taka fyrir okkur,“ segir Eyrún.

Ekki sé alltaf nóg að beita fjárhagslegum ívilnunum sem gulrót til að breyta rótgrónum þáttum í samfélaginu. Sem dæmi hafi strætisvagnafarþegum á Akureyri ekki fjölgað sérstaklega þrátt fyrir að Strætó sé ókeypis á Akureyri. Íbúar geti meira að segja sótt um samgöngustyrk og því í raun fengið borgað fyrir að taka Strætó, en samt séu ekki margir sem nýti sér samgöngurnar.

„Þess vegna blikkaði ég nú ráðherra, því við verðum að þora að taka ákvarðanir,“ segir Eyrún og á þar að sjálfsögðu við umhverfis,- orku,- og loftslagsráðherra Guðlaug Þór Þórðarsson. 

Þurfum að þora eins og með reykingabannið

Hún nefnir sem dæmi bann við reykingum innandyra vegna óbeinna áhrifa á sínum tíma. Bannið hafi tekið við og síðan hafi það gilt og breytt viðhorfum til reykinga innandyra til muna á örfáum árum. 

„Ef það hefði bara verið mælst til þess þá er ég nokkuð viss um að það væru ennþá veitingastaðir og skemmtistaðir sem leyfðu það því þeir myndu ekki þora því rekstrarlega,“ segir Eyrún. 

Mikilvægt sé að Ísland nýti sér þá sérstöðu að vera lítið, vel efnað land sem sé ágætlega á veg komið í orkuskiptunum. 

„Við höfum þann lúxus að geta einbeitt okkur að samgöngunum. Nýtum okkur það. Verum þá bara kröfuharðari hvað þetta varðar og tökum erfiðar ákvarðanir þó að einhverjir verði brjálaðir,“ segir Eyrún.

„Við vitum vel að ef við ætlum að ná þessum markmiðum þá höfum við ekki efni á því að vera að flytja inn bensín- og dísilbíla. Þannig við þurfum þá bara að þora og sýna og það mun vekja athygli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert