„Viljum helst ekki vera étnar af ísbjörnum“

Guðmunda Elíasdóttir, Jórunn Atladóttir, Harpa Leifsdóttir (fer ekki), Elsa Valsdóttir, …
Guðmunda Elíasdóttir, Jórunn Atladóttir, Harpa Leifsdóttir (fer ekki), Elsa Valsdóttir, Sigríður Lárusdóttir og Bjarnþóra Egilsdóttir Ljósmynd/Aðsend

Fimm íslenskar konur sem kalla sig Bárurnar stefna á að synda í Norður-Íshafinu sem umlykur Svalbarða.

Þær munu dvelja á Svalbarða frá 5. til 9.júní og stefna á að synda þann 7. júní ef veður leyfir, en þá eru tvö ár síðan þær syntu boðsund yfir Ermarsundið.

Þær ætla að synda meðfram strönd Langaársbæ sem er nyrsta byggða ból í heimi.

Sundið mun fara fram innan bæjarmarkanna þar sem mikið er um ísbirni á þessu svæði og það getur verið mjög hættulegt að fara út fyrir ákveðin svæði.

„Við viljum helst ekki vera étnar af ísbjörnum,” segir Elsa Valsdóttir, liðsstjóri Báranna, í viðtali við Mbl.

Mikilvægt að æfa kuldaþolið

„Vegalengdin þarf bara að fara eftir því hvernig veðrið er og hvernig stemmingin er,” segir Elsa, spurð hversu langt sundið væri. 

„Það fer bara eftir dagsforminu, sjórinn er núna hálf gráða og við syndum ekki í búningum við erum bara í sundbolum en reyndar við þessar aðstæður munu við vera í neoprene hönskum og sokkum,” segir Elsa, 

Að sögn Elsu munu þær synda í mesta lagi 15 mínútur þar sem sjórinn er svo kaldur.

Bárurnar eru ekki feimnar við sjóinn, þær eru búnar að vera í sjónum í allan vetur og synda allt árið í kring. Að sögn Elsu er mikilvægasti undirbúningurinn fyrir sundið að æfa kuldaþolið.

Bárurnar í Nauthólsvík
Bárurnar í Nauthólsvík Ljósmynd/Aðsend

Meira stress hjá aðstandendum

Er einhver sérstök ástæða fyrir því að þið eruð að gera þetta?

„Nei í rauninni ekki okkur langar bara til þess, ég meina Norður-Íshafið er þarna og þá þarf að synda í því,” segir Elsa. 

Er eitthvað stress vegna dýralífsins á svæðinu?

„Það er meira stress hjá aðstandendum heldur en okkur,” segir Elsa. „Ef maður er skynsamur og fylgir reglunum sem eru á staðnum þá held ég að þetta sé í lagi.”

Að sögn Elsu er ekkert stress í hópnum, bara mikill spenningur fyrir þessu verkefni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert