Vinnur í kirkjugarði og stefnir á verkfræði

Gabríela Albertsdóttir útskrifaðist með 9,76 í meðaleinkunn nú á dögunum. …
Gabríela Albertsdóttir útskrifaðist með 9,76 í meðaleinkunn nú á dögunum. Myndin er samsett. Ljósmynd/Aðsend

Hin 19 ára Gabríela Albertsdóttir er nýjasti dúx Menntaskólans við Hamrahlíð en hún útskrifaðist nú á dögunum af náttúrufræðibraut með 9,76 í meðaleinkunn. Hún segist þó ekki hafa stefnt að því að dúxa.

„Ég stefndi bara að því að fá eins hátt og ég gat í öllum áföngum, markmiðið var aldrei sérstaklega að dúxa en ég svosem vissi af meðaleinkunninni minni og ég var bara mjög sátt með hana og mjög glöð síðan þegar kom svo í ljós að ég hefði dúxað,” segir Gabríela um áfangann í samtali við mbl.is.

Hvernig fórstu að þessu?

„Ég bara lærði og gerði mitt besta. Mér gekk vel á fyrsta ári og ákvað bara að ég myndi leggja mig hundrað prósent fram í að ná öllu svona vel aftur.“

Erfiðast að færa fórnir í félagslífinu

Eru það einhverjar sérstakar lærdómsaðferðir sem þú ert að beita?

„Það er bara að glósa mikið og fylgjast vel með í tímum, það borgar sig eiginlega alltaf. [...] það er algjörlega þess virði að vinna fram í tímann og fylgjast með.“

En hvað var erfiðast í þessu öllu saman?

„Það var náttúrulega kannski smá erfitt að fórna aðeins félagslífinu þó ég hafi reynt mitt besta að halda jafnvægi, en það er mjög erfitt að vera mjög virkur í félagslífinu, og ætla að læra svona mikið. En maður getur það samt alveg ef maður leggur sig fram. En já, maður þurfti smá að fórna þar.“

Aðspurð hvaða fög hafi verið mest krefjandi og léttust nefnir hún íslensku og stærðfræði. Hún segir íslenskuna vera krefjandi í MH en stærðfræðina skemmtilegasta.

„Það er stærðfræðin, bara pottþétt. Það var skemmtilegast, ekki endilega léttast,“ segir Gabríela og hlær.

Gabríela stefndi ekki að því að dúxa.
Gabríela stefndi ekki að því að dúxa. Ljósmynd/Aðsend

Ljúfsárt að ljúka þessum kafla

Hvað varðar framtíðina segist hún stefna á læknisfræðilega verkfræði en fyrsta skrefið sé þó að hefja nám í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands í haust. Sumarið muni svo fara í að vinna við garðyrkju í Fossvogskirkjugarði og útskriftarferð til Costa Brava með skólafélögunum en þau halda út fyrir landsteinana nú á miðvikudag.

En hvernig eru síðustu dagar eftir útskrift búnir að vera?

„Það er svona [ljúfsárt], segir maður kannski. Maður er glaður og þetta er skemmtilegt en svo er maður að kveðja mjög skemmtilegan kafla í lífinu.“

Hvaða heillaráð myndirðu gefa öðrum sem væru til í að gera það sama og þú.

„Trúa á sjálfan sig, trúa að þú getir þetta og þá nær maður að leggja sig fram alveg hundrað prósent.“

Ljóst er að Gabríela er búin að leggja mikið á sig á sinni menntaskólagöngu, aðspurð hvaða einkunnarorðum hún muni lifa eftir í sumar leggur hún áherslu á hvíld.

„Ég held það sé bara, njóta og hafa gaman á meðan ég get. Bara hvíla mig smá,“ segir Gabríela að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka