Borgin sýni engan samningsvilja

Kjaradeilda Eflingar við Reykjavíkurborg snýst síst um launaliðinn að sögn …
Kjaradeilda Eflingar við Reykjavíkurborg snýst síst um launaliðinn að sögn Sólveigar Önnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir viðbrögð Reykjavíkurborgar við málefnalegum, vel rökstuddum og vel málfluttum kröfum Eflingar hafa verið með þeim hætti að Efling áttað sig á því að ekki stæði annað til boða en að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. 

Þetta segir Sólveig í samtali við mbl.is spurð hvers vegna Efling hafi ákveðið að vísa kjaradeilu sinni við Reykjavíkurborg til ríkissáttasemjara eins og tilkynnt var um á mánudag. Hún gerir ráð fyrir að fyrsti fundur hjá ríkissáttasemjara verði fljótlega í næstu viku. 

Vilja bæta aðstæður á vinnustöðum 

„Þetta snýst raunverulega síst um launaliðinn. Maður hefði geta ímyndað sér, í ljósi þess að þar þurfa ekki að eiga sér stað átök, að vilji væri til þess að koma með samninganefnd Eflingar í það verkefni að finna lausnir á málum sem einfaldlega verður að finna lausnir á,“ segir Sólveig og bætir við:  

„Við hófum að funda fyrir miðjan apríl og töldum að þetta myndi ganga vel sökum þess að við höfum fallist á, og það kemur fram í okkar kröfugerð, að sú launastefna sem mótuð var á almenna markaðnum haldi og við séum að fara að semja um sambærilegar hækkanir.“

Þess í stað segir Sólveig að Efling hafi ákveðið að beina athygli sinni að því að bæta aðstæður á vinnustöðum. Efling hafi talið að það væri vilji hjá borginni til þess að eiga árangursríkt samtal við Eflingu um þau mál. 

Ekki hægt að útskýra óréttlætið með málefnalegum hætti 

Sólveig útskýrir að allt í allt hafi verið fundað tíu sinnum í deilunni, en þrátt fyrir það hafi samtalinu ekkert miðað áfram. 

„Á síðasta fundi sem við áttum við borginni fengum við viðbrögð þeirra við mjög vel unnum tillögum samninganefndar Eflingar varðandi undirbúningstíma starfsfólks á leikskólum. Það er auðvitað stór hópur Eflingarfélaga sem starfa á leikskólunum og í raun og veru má segja að leikskólar Reykjavíkurborgar séu reknir með vinnu eflingarfólks,“ segir hún. 

Að sögn Sólveigar eru um þannig um hundrað deildarstjórar Reykjavíkurborgar félagsmenn Eflingar. „Mest konur sem sinna auðvitað mjög mikilvægum störfum.“

„Staðan er sú að þessar konur, þessir deildarstjórar, hafa aðeins fimm undirbúningstíma á viku á meðan undirbúningstímar faglærðra deildarstjóra eru tíu klukkustundir á viku. Þrátt fyrir það að þessir deildarstjórar séu að sinna nákvæmlega sömu störfum.“

Sólveig segir að Efling hafi séð tækifæri til að leiðrétta umrætt óréttlæti sem hvorki væri hægt að útskýra eða réttlæta með málefnalegum hætti. Á síðasta fundi með samninganefnd borgarinnar hafi hins vegar komið í ljós að „ekki væri neinn vilji til þess af hálfu samninganefndar borgarinnar“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert