Hagsmunasamtök heimilanna fagna áliti EFTA dómstólsins um túlkun á þeim reglum sem gilda um lánaskilmála sem kveða á um breytilega vexti. Þó að um álit sé að ræða verði íslenskir dómstólar að fylgja því, enda geti þeir annars gert íslenska ríkið bótaskylt.
Þetta kemur fram í tilkynningu samtakanna.
Hagsmunasamtök heimilanna leggja áherslu á að álitið gefi afdráttarlaust til kynna að umræddir skilmálar séu óréttmætir. Að lánveitendur sem sömdu hina óréttmætu skilmála beri sjálfir ábyrgð á því og að óréttmætum skilmálum skuli víkja til hliðar en samningarnir gildi að öðru leiti án breytinga.
Samtökin leggja jafnframt áherslu á að lánveitendum beri að endurgreiða með dráttarvöxtum allt fé sem þeir hafa oftekið á grundvelli óréttmætra skilmála, umfram þá vexti sem komu fram í samningi frá upphafi.
Að endurkröfuréttur neytenda skuli gilda að minnsta kosti jafn lengi og samningarnir og að fullnaðarkvittun skuli gilda, hafi neytandi einhvern tímann greitt lægri vexti en upphaflega komu fram í samningi.
„Því miður hefur sagan sýnt að þegar fjármálafyrirtæki brjóta á réttindum neytenda, virðast dómstólar leita allra leiða til að leysa þá undan ábyrgð. Hagsmunasamtök heimilanna ítreka því að slík háttsemi getur bakað ríkinu bótaskyldu á kostnað almennings. Samtökin vonast til þess að nú muni dómstólar aðeins dæma eftir lögunum með rétt neytenda í fyrirrúmi eins og þeim ber skylda til,“ segir í tilkynningunni.
Samtökin minna einnig á að árið 2010 hafi dómsmál um lán með ólögmætum skilmálum fengið flýtimeðferð og sett Íslandsmet í málshraða. Frá þingfestingu málsins í héraði liðu aðeins 79 dagar þar til dómur Hæstaréttar Íslands lá fyrir. Sá mikli flýtir var sagður nauðsynlegur vegna „almannahagsmuna“ og „til að eyða óvissu“.
„Sambærileg flýtimeðferð fyrir dómstólum hlýtur að vera nauðsynleg núna enda eru gríðarlegir almannahagsmunir í húfi og brýnt að eyða allri óvissu um lögmæti skilmála um breytilega vexti í lánum til íslenskra neytenda.“