Eðlilegt að auka afkastagetu ÚNU

Bjarni Benediktsson segir það eðlilegt að bregðast við fjölda mála …
Bjarni Benediktsson segir það eðlilegt að bregðast við fjölda mála sem berast úrskurðarnefnd um upplýsingamál. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er orðið of mikið og mig grunar að það hafi eitthvað með fjölda málanna að gera,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, inntur eftir viðbrögðum um málsmeðferðartíma úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Morgunblaðið greindi frá því í gær að verulegur dráttur sé á niðurstöðum nefndarinnar. Það sem af er ári hefur nefndin kveðið um 12 úrskurði og eru dæmi um að málsmeðferðartíminn sé hátt í 15 mánuði.

„Það hefur orðið gríðarleg fjölgun á málum sem er skotið til nefndarinnar og það er eðlilegt að það verði brugðist við því með því að auka afkastagetu nefndarinnar,“ segir Bjarni.

„Það er ekki annað verjandi.“

Mikilvæg mál fá ekki afgreiðslu

mbl.is greindi frá því í morgun að engar upplýsingar fengjust uppgefnar um hverjir fái meirihluta þeirrar endurgreiðslu sem ríkið veitir vegna rannsókna og þróunar ár hvert. Upplýst var um þá sem þáðu endurgreiðslustyrki upp á 17,2 milljarða af 37,4 milljörðum á síðustu sex árum. 

Þá kemur fram að blaðamaður mbl.is óskaði eftir svörum frá Skattinum um sundurliðun á þeim fyrirtækjum sem höfðu fengið styrki. Varð Skatturinn ekki við þeirri beiðni og fór málið fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Tók það nefndina rúmlega 15 mánuði að fara yfir beiðnina og voru þá 18 mánuðir síðan fyrirspurnin var fyrst send Skattinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert