Ekki upplýst hverjir fengu tugi milljarða

Skattaendurgreiðslur sem veittar eru vegna kostnaðar við rannsóknir og þróun …
Skattaendurgreiðslur sem veittar eru vegna kostnaðar við rannsóknir og þróun hafa aukist mikið undanfarin ár. Aðeins er þó upplýst opinberlega um hluta þessara greiðslna. Frá árinu 2017 hefur ekki verið upplýst um hverjir styrkþegar að 20 milljörðum af 37 milljarða endurgreiðslum eru. Fjöldi fordæma er fyrir því að ríkið upplýsi ítarlega um þá styrki sem það veitir, meðal annars til fjölmiðla og í endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engar upplýsingar fást uppgefnar um hverjir fá meirihluta þeirrar endurgreiðslu sem ríkið veitir vegna rannsókna og þróunar ár hvert. Á síðustu sex árum hefur aðeins verið upplýst um þá sem þáðu endurgreiðslustyrki upp á 17,2 milljarða af þeim 37,4 milljörðum sem veittir hafa verið.

Skatturinn upplýsir aðeins um hæstu endurgreiðslurnar ár hvert, en fyrirtæki geta verið með endurgreiðslur upp að tæplega 77 milljónum án þess að neitt komi fram um hvert sá ríkisstyrkur fer.

Aðrir styrkir birtir opinberlega

Þrátt fyrir þá leynd sem er yfir þessum greiðslum hefur ríkið áður greint frá ýmsum styrkjum sem veittir eru og má þar meðal annars nefna endurgreiðslu vegna framleiðslu kvikmyndaefnis, en þar eru allir styrkir sérstaklega tilgreindir. Þá ákvað fjármálaráðherra einnig að upplýsa um alla fyrirtækjastyrki vegna kórónuveirufaraldursins. Upplýsingar um styrki til einkarekinna fjölmiðla eru einnig gerðir opinberir ár hvert, auk þess sem hægt er að nálgast skattaupplýsingar einstaklinga hjá Skattinum á ákveðnum tíma árs.

Endurgreiðslur vegna rannsóknar og þróunar var komið á eftir fjármálahrunið til að ýta undir nýsköpun og byggja undir nýja stoð í atvinnulífinu. Til að byrja með var stuðningurinn á ári hverju 1-2 milljarðar, en tók svo að aukast og var hann 2,8 milljarðar árið 2017.

Stigvaxandi útgjöld, en litlar upplýsingar um styrkþega

Lög um endurgreiðsluna voru útvíkkuð árið 2020, en þá gátu lítil og meðalstór fyrirtæki fengið allt að 35% af kostnaði við rannsóknir og þróun í skattafrádrátt, en stór fyrirtæki 25%. Var hámark þess kostnaðar sem hægt var að miða við hækkað í 1,1 milljarð á fyrirtæki, eða styrk upp á 275 milljónir fyrir stór fyrirtæki og 385 milljónir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Gilda lögin nú til ársins 2025.

Hafa styrkgreiðslurnar á þessum tíma aukist mikið og voru orðnar 5,2 milljarðar árið 2020 og 12 milljarðar árið 2022. Frá árinu 2017 hefur á bilinu 18,5% upp í 60,8% af heildarstyrkjum hvers árs verið birt á vefsíðu Skattsins, en 39,2% og upp í 81,5% ekki komið fram þar sem upphæðirnar þóttu of lágar. Þegar horft er á heildarútgreiðslur yfir tímabilið hafa upplýsingar um styrkþega 17,2 milljarða, eða 46,1% greiðslnanna, komið fram. Hins vegar hefur ekkert komið fram um styrkþega 20,1 milljarðs, eða 53,9% upphæðarinnar.

Rétt er að taka fram að styrkirnir virðast síst á niðurleið, en fyrir árið 2023 hefur verið upplýst um styrkþega upp á 9,6 milljarða. Ekki hafa þó fengist upplýsingar um hver heildarupphæð endurgreiðslu það árið var.

Þeim sem fá endurgreiðslu hefur einnig fjölgað mikið síðustu ár, en fjöldi þeirra nærri tvöfaldaðist frá 2017 til 2022.

Skatturinn með efasemdir um fyrirkomulagið

Í umsögn sinni við lagafrumvarp um endurgreiðslustyrkina árið 2021, sem ekki var samþykkt, varaði Skatturinn opinberlega við ýmsu í sambandi við fyrirkomulag og eftirlit með styrkjunum. Þannig benti Skatturinn á að aukin aðsókn í styrkina kunni að stafa af því að fyrirtæki sem ekki eigi tilkall til stuðnings séu að sækja um þá.

Einnig hefur Skatturinn sagt að ekki sé vanþörf á eftirliti með þessum endurgreiðslum og viðurlögum við misbeitingu, en slíkt er ekki að finna í lögum í dag. Sagði Skatturinn að ef gera ætti endurgreiðsluna að varanlegu úrræði þyrfti að styrkja regluverk endurgreiðslunnar og einfalda og að passa að aukins gagnsæis væri gætt.

Í sömu umsögn benti Skatturinn jafnframt á að sérstaklega æskilegt væri að samhliða því að festa styrkina í sessi væri mikilvægt að kveðið væri skýrt á um það hvort aðkeyptur kostnaður frá tengdum aðila gæti fallið undir styrkhæfan kostnað eður ei. Skatturinn segir einnig að sjaldnast sé byggt á mati og skoðun fagaðila við umsókn á endurgreiðslu og að misnotkun geti leitt til verulegra útgjalda af hálfu hins opinbera og raskað samkeppni á markaði.

Það er því ljóst að Skatturinn hefur um nokkurt skeið talið löggjöfina í kringum endurgreiðslurnar veika og að líkur væri á misferli samhliða því sem eftirlit væri mjög veikt.

Athugasemdir frá OECD

Vinna við að fara yfir framkvæmd og eftirlit þessa stuðnings er í vinnslu og var OECD meðal annars fengið til að meta áhrif stuðningsins og árangur. Var í þeirri skoðun gerð alvarleg athugasemd við eftirlit með styrkjunum og skort á gögnum. Í nýlegri fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2024-2028 var regluverkið í kringum framkvæmd styrkjanna jafnframt kallað óljóst og tekið fram að stuðningurinn sé umfangsmikill.

Í fjármálaáætluninni 2024-2028, sem kynnt var fyrr á þessu ári, er jafnframt vísað til þess að undanfarin ár hafi einungis á bilinu 6-7% stuðningsins gengið upp í tekjuskatt, en restin verið í formi beins stuðnings úr ríkissjóði. Því er ekki bara um eftirgjöf skattgreiðsla að ræða, heldur beina styrki sem greiddir eru út vegna kostnaðar fyrirtækjanna.

15 mánaða afgreiðsla úrskurðarnefndar

Í ljósi alls þessa óskaði blaðamaður eftir svörum í nóvember 2022 frá Skattinum og bað m.a. um sundurliðun á þeim fyrirtækjum sem höfðu fengið styrki. Var þeim hluta fyrirspurnarinnar hafnað. Var þá leitað til úrskurðanefndar upplýsingamála í janúar í fyrra. Skatturinn svaraði 1. febrúar, en úrskurður nefndarinnar féll svo ekki fyrr en 471 degi síðar, eða í síðustu viku. Tók það því nefndina rúmlega 15 mánuði að fara yfir beiðina og voru um 18 mánuðir síðan fyrirspurnin var þá fyrst send á Skattinn.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar var vísað til meðalhófs varðandi birtingu opinberra upplýsinga um opinberar endurgreiðslur og styrki. Jafnframt er vísað til þess hversu mikið endurgreiðslan hefur aukist á undanförnum árum, áhyggja Skattsins af skorti á eftirliti og að óprúttnir aðilar væru að nýta sér styrkina án ástæðu. Einnig væri óljóst hvað gæti flokkast sem þróun og væri þar með styrkhæft. Var þar rakið að fyrirtæki gætu náð forskoti á samkeppnisaðila sína ef þau nýttu sér styrkina án þess að það væri almennt tengt við rannsóknir og þróun.

Einnig eru dæmi um að fyrirtæki hafi skipt rannsóknar- og þróunarkostnaði niður á tvö fyrirtæki og þannig fengið tvöfalda hámarksupphæð. Meðan ekki er hægt að sjá heildarlista yfir styrkþega er hins vegar ekki hægt að meta hvort önnur fyrirtæki fari yfir hámarkið með því að skipta rekstrinum í tvö eða fleiri fyrirtæki.

Dæmi um þetta er CCP sem hefur undanfarin ár verið við hámarkið fyrir bæði CCP platform ehf. og CCP ehf. og þar með fengið lang hæstu styrkina ár hvert.

Segjast ekki mega afhenda gögnin

Í umsögn sinni til kærunefndarinnar sagðist Skatturinn ekki hafa heimild til að birta upplýsingar um styrki til einstakra fyrirtækja umfram það sem þegar væri birt á vefsíðu Skattsins og í miðlægri vefgátt Eftirlitsstofnunar EFTA. Er þar miðað við lög um EES, en í kafla um skilyrði ríkisaðstoðar er sérstaklega tekið fram að upplýsingar „um hverja úthlutun stakrar aðstoðar sem fer yfir 500.000 evrur.“

Þá vísaði Skatturinn í lög um tekjuskatt og þagnarskylduákvæði sem nái til upplýsinga um tekjur og efnahag skattaðila.

Eins og fyrr hefur komið fram eru undanþágur frá þessu, meðal annars þegar Skatturinn birtir álagningar- og skattskrár á ákveðnum tíma árs og eru þær þá til sýnis fyrir almenning. Vísað er til þess að hægt sé að nálgast upplýsingar um endurgreiðslu vegna þróunarkostnaðar í álagningarskrá, en það er þó háð því að sá sem leitar viti hvaða fyrirtækjum hann á að leita að.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar er vísað í lög um tekjuskatt og að þagnarskylda hvíli yfir Skattinum. Þá er vísað í úrskurðarframkvæmd og að þetta ákvæði hafi sérstaka þagnarskyldu og gangi af þeirri ástæðu almennt framar rétti til aðgangs að gögnum samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga.

Því telur nefndin að þagnarskyldan varðandi endurgreiðslunar og þar með styrkgreiðslur ríkisins sé sérgreind þar sem hún taki til upplýsinga um tekjur og efnahag skattaðila. Því sé Skattinum heimilt að synja beiðninni án þess að mat fari fram um það hvort hagsmunir almennings af upplýsingunum vegi þyngra en hagsmunir af því að þær fari leynt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert