Flæðir yfir Grindavíkurveg á tveimur stöðum

Eldgos 29. maí 2024.
Eldgos 29. maí 2024. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldgosið sem hófst við Sundhnúkagígaröðina í dag virðist vera það öflugasta sem sést hefur á Reykjanesskaganum síðustu ár. Hraun hefur flætt yfir Grindavíkurveg á að minnsta kosti tveimur stöðum.

Benedikt Gunnar Ófeigsson jarðeðlisfræðingur segir í samtali við mbl.is að hámarkshraunflæði virðist talsvert meira en hefur verið í síðustu gosum.

Hvernig er krafturinn í þessu gosi miðað við síðustu gos á Reykjanesskaganum?

„Hann er heldur meiri, mun meiri í rauninni. Það er fyrsta mat alla veganna,“ svarar Benedikt en tekur fram að fyrstu mælingar gefi ekki endilega skýrustu mynd af krafti gossins. 

Hraun flæðir yfir Grindavíkur veg norður fyrir Sýlingarfell annars vegar …
Hraun flæðir yfir Grindavíkur veg norður fyrir Sýlingarfell annars vegar og suður að Þorbirni hins vegar. mbl.is

20 milljónir rúmmetrar safnast

Í síðustu gosum nam hraunflæðið þegar mest lét um að hámarki 1.200 rúmmetrum á sekúndu.

Í þessu gosi hefur hámarksflæði aftur á móti numið um 1.500-2.000 rúmmetra á sekúndu í upphafi goss, segir Benedikt. „Sem er kannski afleiðing af því að þrýstingur í Svartsengi var orðinn tvöfalt á við það sem hann var fyrir síðustu gos.“ 

Um 20 milljónir rúmmetra af kviku höfðu safnast undir Svartsengi fyrir gosið, en áður höfðu jarðvísindamenn talið að þolmörk kvikugeymisins lægju á aðeins í kringum 10 milljónir rúmmetra.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands. mbl.is/Eyþór Árnason

Hraunið þegar náð að raflínum

Benedikt segir að hraun hafi flætt yfir Grindavíkurveg á að minnsta kosti tveimur stöðum, norður fyrir Sýlingarfell annars vegar og suður að Þorbirni hins vegar. Virknin sé enn mikil á allri sprungunni.

„Svo hefur hraunið verið að ná raflínum,“ bætir hann við en tekur fram að hann viti ekki hvort tjón hafi orðið á línunum, sem liggja meðfram Þorbirnir inn til Grindavíkur.

Ef miðað er við núverandi rennsli er mögulegt að hraunið renni yfir Njarðvíkuræð, heita­vatnslögn­ina sem út­veg­ar öll­um Suður­nesj­um heitt vatn.

„Ef áfram heldur sem horfir getur það gerst, en það er aðeins lengra í það og við eigum kannski heldur von á því að það detti niður krafturinn í þessu og það hægi á þessu,“ segir hann að lokum.

mbl.is fylgist áfram með framvindu eldsumbrota á Reykjanesskaga:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka