Jónas Yngvi Ásgrímsson, formaður ferðanefndar Lionsklúbbsins Dynks í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, segir allflesta þeirra sem voru í hópferðabílnum sem valt í vorferð klúbbsins í Rangárvallasýslu á laugardag á góðum batavegi.
Í gær voru fjórir enn á sjúkrahúsi en til stendur að útskrifa einn þeirra í dag.
Jónas hefur lýst atburðarásinni á laugardag þannig að rútan hafi verið á leið upp brekku og beygja hafi verið fram undan. Á um 30 metra kafla hafi bílstjórinn verið að stöðva rútuna til að passa að fara ekki út af veginum, eftir að hafa farið út í kant til að búa til pláss ef annar bíll mætti rútunni.
Þegar rútan var nærri stopp hafi hún oltið og eins og kanturinn hafi gefið sig. Fólkið hentist til í rútunni og sumir klemmdust í sætunum. Þrír köstuðust út um brotnar rúður og beita þurfti klippum til að ná öllum út.
Allir sem voru í rútunni slösuðust við veltuna; 26 farþegar auk bílstjóra. Að sögn Jónasar eru meiðsli á fólki ekki meiriháttar. Þó sé ein með illa brotið hné og önnur með brotna hryggjarliði. Segir hann stóran hluta hópsins aðeins hafa fengið skeinur, marbletti eða hefðbundin eymsli. Sem betur fer hafi enginn verið í lífshættu eða slasast alvarlega.
Jónas bendir þó á að þegar um sé að ræða fullorðið fólk geti minni áverkar verið alvarlegir en fólkið sem var í ferðinni er flest komið af léttasta skeiði, sá yngsti rétt að verða fimmtugur og sá elsti kominn á níræðisaldur. „Við segjum það gjarnan að félagatal Lionsklúbbsins Dynks og félagatal Félags eldri borgara skarist dálítið mikið,“ segir Jónas í gamansömum tón.
Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Mogunblaðinu í dag.