Búið hefur verið í næstum 30 húsum í Grindavík undanfarið. Þetta segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, spurður út í rýminguna sem núna er í gangi.
Fannar er staddur í Tollhúsinu í Reykjavík þar sem bæjarskrifstofur Grindavíkur eru til húsa. Þar eru einnig fulltrúar frá almannavörnum og segist Fannar vera í góðu sambandi við alla sem eru á vaktinni vegna yfirvofandi eldgoss.
Hann segir stöðuna núna í tengslum við rýminguna vera nokkuð þekkta.
„Lúðrarnir gera sitt gagn í Grindavík. Þeir voru settir strax í gang og þeir fara ekki framhjá neinum. Ég veit ekki betur en að það séu fumlaus viðbrögð hjá fólki sem er að yfirgefa bæinn eftir að rýming var boðuð,” segir Fannar.
Hann reiknar með því að fara síðar í dag í miðstöð almannavarna í Skógarhlíð ef það dregur til frekari tíðinda.