Hagkaup verðmerkti sömu vörurnar tvisvar

Sumar vörur voru verðmerktar tvisvar með mismunandi verði.
Sumar vörur voru verðmerktar tvisvar með mismunandi verði. mbl.is/Hjörtur

Verðmerkingar í Hagkaup eru óáreiðanlegar og í einhverjum tilfellum eru tvær ólíkar verðmerkingar á sömu vöru í sömu verslun að sögn ASÍ.

Alþýðusambandið greinir frá því í tilkynningu að dæmi um þetta finnist aðeins örsjaldan í öðrum verslunum. Í einu tilfelli nam munurinn 260 krónum. Rangmerkt verð er oftast að finna á pappírsverðmiðum, en þó ekki eingöngu.

Þetta er niðurstaða greiningar á gögnum sem verðlagseftirlit ASÍ hefur aflað undanfarnar vikur, en verðlagseftirlit ASÍ fer í viku hverri í verslanir til að afla verðupplýsinga. Oft mátti finna tvö verð á sömu vöru í sömu verslun, sama dag.

Sumar vörur voru verðmerktar tvisvar með mismunandi verði.
Sumar vörur voru verðmerktar tvisvar með mismunandi verði. Ljósmynd/Aðsend

Hagkaup merkir ýmsar vörur tveimur verðum

Langoftast var Hagkaupsverslun sek um tvíverðmerkingar.  Svo dæmi sé tekið kostaði engifer bæði 1.399 kr og 1.599 kr í Hagkaup Spönginni.

Dökkt sykurlaust Valor súkkulaði kostaði 419kr og 479kr í Hagkaup Smáratorgi og Þristaterta kostaði bæði 2.239kr og 2.499kr í Hagkaup Kringlunni. Móðir Náttúra indverskar pönnukökur, Hagkaup Kringlunni: 1.499kr og 1.579kr.

Nokkrir tugir annarra vara fundust, til dæmis fleiri vörur frá Valor, aðrar frá Nóa Síríus, Kjörís Hlunkar, Ítalía Pestó og svo framvegis. Eins og gefur að líta er hér um alls kyns flokka að ræða og lítið mynstur annað en að yfirleitt er um pappírsmerkingar að ræða á að minnsta kosti öðru verðinu.

Sektir ekki dugað

Verðmerkingum Hagkaups hefur verið ábótavant lengur en bara undanfarnar vikur, segir ASÍ, sem vísar síðan til athugunar Neytendastofu frá því í apríl og í síðustu viku.

„Sektir Neytendastofu í þessum tveimur málum námu 150.000 krónum, en það hefur ekki dugað til, því enn eru verðmerkingar óviðunandi í Hagkaupsverslunum. Verðlagseftirlitið brýnir því fyrir fólki að taka verðmerkingum í Hagkaup með fyrirvara og athuga sérstaklega við kassann hvort rétt verð sé rukkað,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert