Agnar Már Másson
Kvikuhlaup er hafið við Sundhnúkagígaröðina, þar sem um 150 skjálftar hafa mælst í skjálftahrinu á milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells á síðustu tveimur klukkustundum.
Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
„Það er ekki byrjað gos í bili. Við erum áfram að fylgjast með stöðunni. Það eru áfram skjálftar að tikka inn og órói sem kemur á gröfum hjá okkur,“ segir Lovísa og bætir við að Veðurstofan haldi áfram að fylgjast með þróuninni.
„Það er einhver hreyfing á kviku, en bara spurning hvort hún nái upp á yfirborðið í þessum atburði,“ bætir náttúruvársérfræðingurinn við.
Lovísa segir allt benda til þess að skjálftavirknin sé vegna kvikuhlaups. Skjálftarnir á svæðinu eru flestir í kringum 1 að stærð eða smærri, þó örfáir hafi einnig mælst yfir 1,5 að stærð.
Fram að þessu höfðu 20 milljónir rúmmetrar af kviku safnast í kvikugeyminn undir Svartsengi frá 16. mars, þegar síðasta gos hófst. Veðurstofa lýsti síðasta gosi loknu þann 9. maí. Það stóð því yfir í 54 daga.
Þyrla landhelgisgæslunnar er í biðstöðu.