Jákvæð fyrir auknu gagnsæi styrkjakerfisins

Sigurður Hannesson segir endurgreiðslukerfið hafa átt mikinn þátt í uppbyggingu …
Sigurður Hannesson segir endurgreiðslukerfið hafa átt mikinn þátt í uppbyggingu hugverkaiðnaðarins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum verið mjög jákvæð gagnvart endurskoðun á umgjörð kerfisins eða kerfinu sjálfu,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við mbl.is spurður að endurskoðun á endurgreiðslukerfi vegna rannsóknar og þróunar. 

mbl.is greindi frá því í morgun að ekki er upplýst um það hverjir fá meirihluta þeirrar endurgreiðslu sem ríkið veitir vegna rannsókna og þróunar. Aðeins er upplýst hverjir þiggja hæstu endurgreiðslurnar en á síðustu sex árum námu þær greiðslur 17,2 milljarða af 37,4 milljörðum sem veittir hafa verið. 

Fjármunir leiti raunverulega til verkefna

„Við erum mjög hlynnt skoðun með það að markmiði að fjármunirnir leiti raunverulega til þeirra verkefna sem þeirra er ætlað,“ segir Sigurður. Þau séu jákvæð fyrir því að auka gagnsæi í kerfinu. 

Spurður hvort hann viti til þess að fyrirtæki hafi misnotað þetta kerfi svarar Sigurður því að hann viti ekki til þess. „Ég hef ekki heyrt af því en ég geri ráð fyrir því að yfirvöld fylgist vel með.“ 

Sigurður bendir á að endurgreiðslukerfið hafi skipt sköpum í því að byggja upp hugverkaiðnaðinn. 

„Grundvöllurinn á þessu öllu saman er að miklu leyti til vegna þessara skattahvata,“ segir hann. 

Tengja saman hugverkaiðnað og nýsköpun 

Umsvif endurgreiðslukerfisins hefur aukist á síðustu misserum og bendir Sigurður á ýmislegt í því samhengi.  

„Á móti má ekki gleyma því að þrátt fyrir að þetta hafi verið 12 milljarðar árið 2022 er heildarskattspor hugverkaiðnaðar 77 milljarðar,“ segir Sigurður og vísar til greiningar sem Reykjavík economics vann fyrir Samtök iðnaðarins frá því fyrr á árinu. 

Sigurður segir samtökin tengja saman hugverkaiðnað og nýsköpun og þar af leiðandi til skattahvatanna. 

„Það er meiri framleiðni í hugverkaiðnaðinum en gengur og gerist,“ segir Sigurður að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert