„Nei ég held ekki,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is spurður hvort fyrirkomulag endurgreiðslu vegna þróunar og rannsókna sé eðlilegt í núverandi mynd. Ekki fást upplýsingar um hverjir fá meirihluta endurgreiðslu sem ríkið greiðir vegna rannsókna og þróunar.
„Ástæðan er sú að Skatturinn telur sig ekki hafa lagaheimild til að birta þessar upplýsingar og birtir því aðeins styrk þeirra sem fá hærri styrk en 500 þúsund evrur,“ segir Sigurður Ingi.
Á síðustu sex árum hefur aðeins verið upplýst um þá sem þáðu endurgreiðslustyrki upp á 17,2 milljarða af þeim 37,4 milljörðum sem veittir hafa verið.
„Mér finnst alveg koma vel til greina að það þyrfti að setja sérstaka lagaheimild sem myndi heimila Skattinum birtingu þessara upplýsinga sem er ekkert óalgengt þegar um styrki er að ræða,“ segir hann.
Hann segir að frá heimsfaraldrinum hafi fjármunirnir sem fara í kerfið vaxið gríðarlega hratt og á sama tíma hafa útflutningstekjum hugverkaiðnaðar aukist.
„Þegar eitthvað vex svona hratt á stuttum tíma er líka mikilvægt að skýra regluverkið og efla eftirlit,“ segir Sigurður.
„Þetta [opinberun upplýsinganna] gæti verið eitt af því.“
Þannig það má þá vænta þess að þessu verði breytt í tíð þessarar ríkisstjórnar.
„Já við erum að skoða hvernig hlutirnir gætu verið betri,“ segir Sigurður.
Og lagabreyting kemur til greina?
„Þá kæmi lagabreyting eða annað sem við þurfum að gera til greina,“ segir hann að lokum.