Mjög skýr skjálftavirkni er við Sundhnúkagíga sem bendir til þess að kvika sé á hreyfingu og sé að að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið á mjög svipuðum slóðum og áður.
Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
„Við erum ekki búin að sjá að kvikan sé að nálgast yfirborð og það virðist vera erfiðara fyrir hana að komst upp heldur en áður. Nú er bara spurning hvað kvikan nái að gera. Þetta er hægari atburðarás heldur en við höfum verið að sjá undanfarið,“ segir Benedikt.
Benedikt segir að ef það byrji að gjósa þá sé viðbúið að það byrji með miklum krafti eins og hefur gert í síðustu gosum.
„Eins og þetta er að haga sér núna þá býst maður frekar við því að dragi til tíðinda á næstu klukkutímum. Þetta er kvikuhlaup sem er í gangi en það er erfitt að segja til um tímarammann og hvort kvikan nái yfir höfðu að komast upp á yfirborðið.“