Fjórir starfsmenn Eflu voru staddir í Grindavík í morgun á vegum Þórkötlu til að hitta íbúa sem ætluðu að afhenda fasteignafélaginu eignir.
Alls ætluðu starfsmennirnir að taka á móti á bilinu 20 til 30 eignum í bænum í dag. Þeir skiptu eignunum á milli sín og voru því að störfum á mismunandi stöðum í bænum. Hver starfsmaður var að taka á móti sinni þriðju eign upp úr klukkan 11 þegar viðvörunarflautur tóku að óma í bænum vegna yfirvofandi kvikuhlaups og eldgoss.
„Ég var búinn að standa með íbúa inni í húsinu hjá viðkomandi í örfáar mínútur þegar við heyrum í neyðarflautunum. Við fórum út og kláruðum í flýti þessa móttöku og svo var það bara hver upp í sinn bíl og farið út úr bænum,” segir Þráinn Fannar Gunnarsson, verkefnastjóri hjá Eflu, spurður út í málið.
Straumnum var fylgt út úr bænum í rýmingu almannavarna. Þráinn Fannar tók stöðuna á sínu samstarfsfólki og fékk staðfest að það væri einnig á leiðinni út úr bænum.
Hann kveðst hafa verið viðriðinn Grindavík í nokkurn tíma og hefur áður heyrt í viðvörunarflautunum. Komu þær honum því ekki úr jafnvægi. Öryggisstjóri svæðisins hafði einnig farið vel yfir öryggismálin með öllum og sýnt þeim flóttaleiðir.
„Það voru allir með á hreinu hvað átti að gera þannig að það myndaðist ekkert panikkástand. Það voru allir rólegir og fylgdu þeim leiðbeiningum sem þeir fengu varðandi rýmingu,” greinir hann frá.
Að vonum er óvíst hvenær hægt verður að ljúka afhendingunni sem hófst í morgun vegna eldgossins. Fram kom í tilkynningu frá Þórkötlu fyrr í dag að hugur starfsfólks fasteignafélagsins væri hjá bæjarbúum, fólki sem hefði starfað í nágrenninu og viðbragðsaðilum.