Ákærður fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots

Pétur Jökull Jónasson.
Pétur Jökull Jónasson.

Héraðssaksóknari hefur ákært Pétur Jökul Jónasson fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots. Ákæran tengist stóra kókaínmálinu svokallaða þar sem þrír aðrir hafa þegar verið dæmdir fyrir sinn þátt.

Pét­ur Jökull var eft­ir­lýst­ur hjá In­terpol í tengslum við málið en var í febrúar handtekinn við komu til Íslands. 

Hann er ákærður fyrir að hafa staðið að innflutningi á 99,25 kg af kókaíni hingað til lands frá Brasilíu með viðkomu í borginni Rotterdam í Hollandi.

Fram kemur í ákærunni, sem mbl.is hefur undir höndum, að efnin hafi verið falin í sjö trjádrumbum sem var komið fyrir í gámi. Þau voru haldlögð af hollenskum yfirvöldum 30. júní 2022 og var gerviefnum komið fyrir í drumbunum.

Gámurinn kom til Íslands aðfaranótt 25. júlí sama ár og voru drumbarnir fjarlægðir úr gámnum 4. ágúst. Þaðan voru þeir fluttir til Hafnarfjarðar þar sem hin ætluðu fíkniefni voru fjarlæg.

Hluti ætluðu fíkniefnanna var síðan fluttur í bifreið til ótilgreinds aðila til að hægt væri að koma þeim í sölu og dreifingu. Lögreglan lagði hald á hluta af ætluðu fíkniefnunum í bifreiðinni þar sem henni var lagt í bílastæði í Mosfellsbæ.

Í ákærunni er þess krafist að Pétur Jökull verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert