„Ég er að elda ossobuco“

„Kannski,“ svarar Jón Gnarr forsetaframbjóðandi á forsetakappræðum Morgunblaðsins spurður hvort fólk sé að kjósa leiðindin miðað við fylgiskannanir.

Jón hefur lagt upp með að vera hann sjálfur og talað um að það sé offramboð af leiðindum.

„Ég veit ekki. Ég er að elda ossobuco, það er sem sagt ég, og ef það [kjósendur] vill það ekki þá segir það bara nei takk við viljum ekki ossobuco við erum hætt að borða ossobuco og borðum bara fisk,“ segir Jón Gnarr.

Hægt er að horfa á forsetakappræðurnar í heild sinni hér

Forsetinn eigi að vera stemmningsmaður

„Mér finnst forsetinn eiga að vera stemmningsmaður fyrst og fremst. Móralskur vinur þjóðarinnar sem er með puttann á þjóðarpúlsinum og fylgist vel með,“ segir hann. Hvetur þjóðina áfram þegar á móti blæs og huggi hana þegar áföll eru.

„En gleðst líka með þjóðinni þegar vel gengur,“ segir Jón.

Jón bendir á að hann geti breytt málflutningnum sínum núna í samræmi við eftirspurn.

„Ég ætla ekki að gera það, ég stend við þetta,“ segir Jón aðspurður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert