Engin ástæða til að hafa áhyggjur af fénu

Sauðfjárbóndi í Grindavík segir enga ástæðu til að hafa áhyggjur …
Sauðfjárbóndi í Grindavík segir enga ástæðu til að hafa áhyggjur af fénu sem þar er. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson

Úlfar Lúðvíksson, lög­reglu­stjóri á Suður­nesj­um, segir sauðfjárbændur í Grindavík hafa fengið heimild til að sækja fé sitt í bæinn í dag. Sauðfjárbóndi í Grindavík gagnrýnir afskiptasemi dýraverndunarsamtaka og segir engar áhyggjur að hafa af sínu fé. 

Um sjötíu kindur og lömb urðu eftir í sjálfheldu innan girðingar í Grindavík þegar bærinn var rýmdur í gær, samkvæmt upplýsingum frá Dýraverndunarsambandi Íslands sem lýsti í gær áhyggjum sínum af því sauðfé sem varð eftir í Grindavík þegar bærinn var rýmdur.

Víðir Reyn­is­son, sviðsstjóri al­manna­varna, sagði í samtali við mbl.is í morgun að ekki væri hægt að skilja dýrin eftir bjargarlaus og að vonandi yrði hægt að koma þeim úr bænum í dag. 

Ekki hræddur um kindurnar sínar 

Theódór Vilbergsson er einn þeirra sauðfjárbænda sem á fé í Grindavík. Hann segir þetta ekki fyrsta eldgosið sem kindurnar upplifa og kveðst því ekki hafa neinar áhyggjur af þeim. 

„Ég er ekki hræddur við að kindurnar mínar séu í hættu,“ segir hann og útskýrir fyrir blaðamanni að kindurnar hafi verið í góðu yfirlæti innan girðingar vestan bæjarins þegar byrjaði að gjósa í gær.  

„Þegar hraunið fór að renna niður, vestan bæjarins, þá stefndi það beint á fjárhúsið og ég var með þær lokaðar inni í girðingu,“ segir Theódór sem þakkar fyrir þá tilviljun að slökkviliðsstjóri slökkviliðs Grindavíkur hafi verið á svæðinu. 

„Það vildi þannig til að slökkviliðsstjórinn var á ferðinni um fimmtíu metrum frá hliðinu sem ég nota þegar hann fékk tilkynningu um að opna hliðið. Þá fengu þær [kindurnar] frjálsa ferð vestur að Matorku. Sem er talsvert vestar heldur en hraunið er,“ segir Theódór. 

Eltingaleikur dýraverndunarsinna 

Theódór segir næsta mál að koma kindunum á fjall þar sem þær eiga að vera í sumar. Spurður hvort hann hyggist fara í það verk í dag svarar hann neitandi. Hann hafi í hyggju að ljúka því verki á morgun. 

Eins og áður sagði lýsti DÍS áhyggjum sínum af fénu í gær og óskaði þess að dýrunum yrði tafarlaust bjargað. Theódór gefur lítið fyrir afskipti dýraverndunarsamtaka sem hann segir endalaust vera að hamast í sauðfjárbændum í Grindavík. 

„Kindur umgangast sprungur alls staðar um landið. Mér finnst þetta svo mikill eltingaleikur,“ segir hann og bætir við: 

„Ég var að lesa núna frá dýraverndunarsamtökum [....] það er alveg eins og þetta eigi að vera einhver húsdýr. Við förum vel með okkar kindur, enda er útkoman hreinlega ágæt,“ segir hann og biður fólk ekki að hafa áhyggjur af kindunum sínum. 

Betra fyrir kindurnar að vera í Grindavík 

Til að undirstrika mál sitt segir Theódór ekki gott fyrir kindurnar að vera á miklum hræringi. Það hafi ekki allir tök á að geyma þær annars staðar en í Grindavík og því velji bændur sér að gera það. 

„Þeir sem þurftu að flytja sauðfé sitt fram og til baka – þeir misstu margir hverjir lömb,“ segir hann og útskýrir að það geti verið vegna þess að þær hafi verið á endalausu flakki. 

mbl.is ræddi einnig við annan sauðfjárbónda í Grindavík sem þurfti að skilja fé sitt eftir í bænum í gær þegar byrjaði að gjósa. Sá var að vitja dýranna sinna þegar blaðamaður náði tali af honum og sagði að farið yrði með féð á fjall. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert