Lögreglan á Norðurlandi eystra ætlar að fara fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum sem er grunaður um að hafa orðið sambýliskonu sinni að bana í fjölbýlishúsi á Akureyri í síðasta mánuði.
Þetta staðfestir Skarphéðinn Aðalsteinsson, yfirmaður rannsóknardeildar embættisins, í samtali við mbl.is.
Gæsluvarðhald yfir manninum, sem er á sjötugsaldri, rennur út á mánudaginn en hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því að upp komst um málið. Hann er grunaður um að hafa valdið konunni áverkum sem leiddu til dauða hennar.
„Rannsóknin er enn í gangi en hún er langt komin,“ segir Skarphéðinn við mbl.is en maðurinn er sá eini sem er með stöðu sakbornings.