Fasteignamat hækkar meira á landsbyggðinni

Samkvæmt fasteignamatinu hækkar heildarmat fasteigna um 4,3% frá núverandi mati.
Samkvæmt fasteignamatinu hækkar heildarmat fasteigna um 4,3% frá núverandi mati. mbl.is/Sigurður Bogi

Fast­eigna­mat íbúða hækkar meira á lands­byggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu Hús­næðis og mann­virkja­stofn­unar (HMS) um þróun fast­eigna­mats fyrir árið 2025.

Samkvæmt fasteignamatinu hækkar heildarmat fasteigna um 4,3% frá núverandi mati og verður 15,3 billjónir króna.

 Hækkar um 2,1%

Fasteignamat íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 2,1% á milli ára, en hækkunin er 6,6% á landsbyggðinni.

Mesta hækkunin er á fasteignamati í Flóahreppi (20,6%), Tálknafjarðarhreppi (20,0%) og í Skeiða- og Gnúpverjahreppi (19,8%). Fasteignamatið í Kjósarhreppi lækkar aftur á móti um 1,5%.

Fasteignamat einbýla hækkar mest

Sé rýnt í tölur á höfuðborgarsvæðinu má sjá að hækkun íbúða er mest á Seltjarnarnesi eða 4,4%, Í Garðabæ 3,5%, Reykjavík 2,5%, í Hafnarfirði 0,9% og í Kópavogi og Mosfellsbæ er hækkunin 0,8%.

Fasteignamat einbýla hækkar mest eða um 4,7%, því næst eru tvíbýli með 3,2% hækkun, parhús 2,9%, raðhús 2,7%, fjölbýli 2,5% og annað 3,1%.

Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 6,0% á landinu öllu, en hækkunin nemur 5,4% á höfuðborgarsvæðinu og 7,4% á landsbyggðinni. Fasteignamat sumarhúsa hækkar svo um 15,6% á landinu öllu.

Á vefnum leit.fasteignaskra.is er hægt að fletta upp nýju fasteignamati fyrir einstaka fasteignir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert