Grindvíkingar geta haldið í hefð sína og haldið sjómannadagshátíð þeirra, Sjóarann síkáta, hátíðlega á sunnudaginn.
Hátíðin, sem haldin hefur verið í Grindavík undanfarin 26 ár, mun að þessu sinni fara fram í Reykjavík – nánar tiltekið á Sjóminjasafninu.
Hátíðin mun hefjast á Sjóminjasafninu kl. 11:00 og eru allir Grindvíkingar og velunnarar hvattir til að mæta, gera sér glaðan dag og gæða sér á góðgæti sem Slysavarnafélagið Landsbjörg verður með til sölu. Verður þá einnig boðið upp á ókeypis aðgang að sýningum Sjóminjasafnsins og varðskipinu Óðni en skipið verður opið á milli 13:00-15:30.
Þar munu fyrrum varðskipsliðar standa vaktina og taka á móti gestum en hefur áhöfnin frá mörgu skemmtilegu að segja um lífið um borð á árum áður.