Hafa mestar áhyggjur af hrauntjörnum

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna. Myndin er samsett.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna. Myndin er samsett. mbl.is/Óttar, Eggert Jóhannesson

Hópur viðbragðsaðila er nú á leið til Grindavíkur að meta aðstæður í bænum og kanna stöðu varnargarða. Hraun rennur enn til suðurs en hefur hvorki náð að Suðurstrandarvegi né flætt yfir varnargarða.

Þetta segir Víðir Reynisson, sviðsstjóri al­manna­varna, í samtali við mbl.is og bætir við að nóttin hafi verið frekar tíðindalítil.

„Það er hópur að fara núna til að meta aðstæður. Skoða flóttaleiðir, meta Suðurstrandarveginn og austurveginn inn í bæinn, hvort að það hafi orðið einhverjar breytingar, athuga stöðuna við varnargarðana og annað slíkt. Þannig að fyrri partur dagsins fer í stöðumat áður en það verða teknar einhverjar ákvarðanir.“

Hrauntjarnir geta brostið 

Víðir segir að hraunflæði til suðurs sé enn þá talsvert mikið þrátt fyrir að gosið sé minna. Vísindamenn séu þó ekki að verða varir við framrás á hrauninu, hvorki við varnargarða eða við vegi.

Virðist hraunið vera að safnast upp í hrauntjörnum, að sögn Víðis.

Er það eitthvað sem þið hafið áhyggjur af? 

„Einhvers staðar safnast það saman og við höfum alveg séð það í þessum atburðum að hrauntjarnir geta myndast sem síðan bresta og hraunið flæðir hratt fram,“ segir Víðir og bætir við:

„Það er hættan sem við sjáum augljóslega í þessu núna og við ætlum að reyna að fljúga yfir með drónum í dag til að átta okkur á því hvar hrauntjarnir eru að myndast því einhvers staðar safnast hraunið saman. Það er það mikið rennsli á hrauninu að við þurfum að skoða það vel.“ 

Erfitt að meta aðstæður í augnablikinu 

Aðspurður segir Víðir engar vísbendingar um að hraun sé að fara að flæða yfir Suðurstrandarveginn að svo stöddu.

„Þannig að vonandi er sú hætta liðin hjá í bili en þetta gæti náttúrulega haldið áfram að safnast saman,“ bætir hann við og útskýrir að erfitt sé að meta aðstæður akkúrat í augnablikinu vegna lítils skyggnis á svæðinu.

En hefur hraun einhvers staðar farið yfir varnargarða? 

„Nei það hefur hvergi farið yfir varnargarða, þeir hafa allir staðist þetta áhlaup.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert