Kæmi á óvart ef landris væri ekki hafið á ný

Frá Svartsengi.
Frá Svartsengi. mbl.is/Árni Sæberg

„Það kæmi mér mjög á óvart ef það væri ekki,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, spurður hvort landris sé farið að mælast við Svartsengi.

Land seig þar um 15 sentimetra í gær þegar eldsumbrot hófust á nýjan leik við Sundhnúkagígaröðina.

Að sögn Benedikts þurfa nokkrir dagar að líða þar til hægt verður að túlka aflögunargögnin frekar. Ekkert lát hafi þó verið á kvikusöfnun í kvikuhólfið undir Svartsengi síðustu mánuði og hefur því landrisið verið nokkuð stöðugt, að því undanskildu þegar land sígur við upphaf eldsumbrota.

Kveðst Benedikt ekki eiga von á breytingu þar á núna og kæmi því á óvart ef landris væri ekki hafið þó svo að of snemmt sé að lesa það úr aflögunarmælingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert